Innlent

Hawking glæddi áhuga íslenskra vísindamanna á heimsfræði

Kjartan Kjartansson skrifar
Hawking var heimsfrægur, bæði fyrir kenningar sínar um eðli alheimsins og vegna baráttu sinnar við hreyfitaugungasjúkdóms sem læknar spáðu að myndu draga hann til dauða strax á þrítugsaldri.
Hawking var heimsfrægur, bæði fyrir kenningar sínar um eðli alheimsins og vegna baráttu sinnar við hreyfitaugungasjúkdóms sem læknar spáðu að myndu draga hann til dauða strax á þrítugsaldri. Vísir/AFP
Bækur breska stjarneðlisfræðingsins Stephens Hawking glæddu áhuga fjölda fólks á heimsfræði og stjarnvísindum, þar á meðal tveggja íslenskra fræðimanna sem helguðu sig stjarneðlisfræði eftir að hafa lesið þær.

Hawking lést í morgun, 76 ára aldri. Nafn hans var þekkt um allan heim vegna afreka hans á sviði heimsfræðinnar en ekki síst vegna hreyfitaugungahrörnunar sem hann glímdi við frá því að hann var rúmlega tvítugur. Þrátt fyrir að vera ekki hugað líf og að hafa misst hreyfi- og talgetu með árunum varð Hawking einn þekktasti og virtasti raunvísindamaður heims.

Kári Helgason, stjarneðlisfræðingur við Max Planck-stofnunina í Þýskalandi og Háskóla Íslands, segir að hann hafi eins og fleiri fyrst kynnst Hawking í gegnum dægurmenningu eins og Simpson-teiknimyndaþættina.

Þegar hann var um tvítugt las Kári svo bók Hawking „Alheimur í hnotskurn“ sem hafi dregið hann inn í eðlisfræði. Sú bók var nokkurs konar framhald af frægustu bók Hawking „Sögu tímans“.

„Þá ákvað ég að demba mér í eðlisfræði og síðan stjarneðlisfræði. Fyrir mig var hann hann mjög áhugavekjandi, ekki endilega týpan sjálf, heldur var hann rosalega öflugur vísindamaður og þekktur en hann var líka duglegur við að skrifa bækur enda var hann einn frægasti eðlisfræðingur allra tíma,“ segir Kári.

Í sama streng tekur Jón Emil Guðmundsson, stjarneðlisfræðingur við Háskólann í Stokkhólmi. Hawking hafi í bókum sínum kynnt lesendur fyrir margslungnum hugtökum úr eðlisfræði og glætt áhuga þeirra á heimsfræði og stjarnvísindum.

„Þær eru svo sannarlega ástæðan fyrir því að ég starfa við þessa hluti í dag,“ segir Jón Emil.

Kári segir að bók Hawking hafi átt þátt í að hann dembdi sér út í stjarneðlisfræði á sínum tíma.Vísir/Stefán
Hawking-geislun svarthola stærsta framlagið

Helstu vísindalegu afrek Hawking tengdust svartholum með einum eða öðrum hætti. Kári nefnir þannig að í doktorsritgerð sinni hafi Hawking lýst Miklahvelli, upphafi hins þekkta alheims, sem öfugu þyngdarhruni svarthols.

Frægastur er Hawking hins vegar fyrir kenningu um geislun sem stafar frá svartholum og hefur verið kennd við hann. Gekk hún þvert á þær hugmyndir um að svarthol séu algjörlega svört. 

Með kenningunni um Hawking-geislun kynnti hann til sögunnar skammtafræðileg áhrif í tengslum við svarthol. Skilingur á svartholum er einmitt takmarkaður vegna þess að lögmál skammtafræðinnar og almennu afstæðiskenningar Alberts Einstein hafa ekki verið sameinuð en það hefur verið heilagur kaleikur eðlisfræðinga um langa hríð.

Kári segir að samkvæmt svokölluðu óreiðulögmáli skammtafræðinnar geti orka orðið til úr engu í tómarúmi geimsins. Þannig séu pör sýndareinda sífellt að myndast og eyða hvor annarri út.

„Ef það vill svo til að svona eindapar myndast einmitt á sjóndeild svarthols þannig að önnur eindin sleppur en hin fer beint ofan í svartholið þá er orkunni ekki skilað til baka. Þá geislar svartholið í rauninni,“ segir Kári en sjóndeild svarthola eru þau mörk kölluð þar sem þyngdarkraftur þeirra er svo sterkur að ljós sleppur ekki lengur undan því.

Þannig sagði Hawking að svarthol væru ekki eins svört og látið hafði verið í veðri vaka.

Jón Emil segist aldrei munu gleyma jólunum þegar hann fékk Sögu tímans eftir Stephen Hawking að gjöf.Theodore H. Lewis III
„Lögmálið um orkuvarðveislu segir okkur því að svarthol gufa upp á endanum. Mér finnst það svolítið ljóðrænt,“ segir Jón Emil.

„Þessi Hawking-geislun er enn sjóðheitt viðfangsefni í dag,“ segir Kári.

Skilur eftir sig djúp spor í eðlisfræðinni

Þrátt fyrir óneitanlega snilli Hawking telur Kári að hans verði ekki minnst í sömu andrá og risa eðlisfræðinnar eins og Alberts Einstein eða Isaacs Newton í framtíðinni. Frægð hans sé að miklu leyti tikomin vegna veikindanna og erfiðleikanna sem hann sigraðist á.

Það sé þó klárt mál að Hawking skilji eftir sig djúp spor í eðlisfræðinni og Kári telur að með tíð og tíma muni þau standa upp úr.

„Ég held að kannski eftir hundrað ár verði hans frekar minnst fyrir afrek sín á vísindasviðinu,“ segir Kári.

Minnst á samfélagsmiðlum

Fjöldi erlendra stjarneðlisfræðinga og vísindamanna hefur minnst Hawking á samfélagsmiðlum í dag. Bandaríski stjarneðlisfræðingurinn Neil deGrasse Tyson segir Hawking skilja eftir sig „vitsmunalegt tómarúm“.

Breski öreindaeðlisfræðingurinn Brian Cox sagði að vísindamönnum hafi fjölgað fyrir tilstilli Hawking.

„Hann ræddi um gildi og viðkvæmni lífs manna og siðmenningarinnar og hann bætti hvoru tveggja umtalsvert,“ tísti Cox eftir að fréttir af andláti Hawking bárust.

Líkt og Kári og Jón Emil segir bandaríski stjarneðlisfræðingurinn Katie Mack að verk Hawking hafi kveikt draum hennar um að verða heimsfræðingur.

„Áhrif hans voru gríðarleg og hans verður saknaði,“ tístir hún.

Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, birti mynd af þeim Hawking saman á góðri stundu og óskaði honum skemmtunar á meðal stjarnanna.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×