Erlent

Sakar háttsettan embættismann SÞ um kynferðislegt ofbeldi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Luiz Loures er einn af aðstoðarframkvæmdastjórum SÞ.
Luiz Loures er einn af aðstoðarframkvæmdastjórum SÞ. Vísir/Getty

Martina Brostrom, sem starfar sem ráðgjafi hjá UNAIDS, hefur sakað einn af aðstoðarframkvæmdastjórum Sameinuðu þjóðanna um að hafa káfað á henni í lyftu, þvingað hana til að kyssa sig og reynt að draga hana inn á hótelherbergi.

Brostrom greinir frá þessu í viðtali við CNN þar sem hún segir að Luiz Loures, sem einnig er aðstoðarframkvæmdastjóri UNAIDS, sameiginlegrar áætlunar Sameinuðu þjóðanna gegn alnæmi, hafi beitt sig kynferðislegu ofbeldi.

„Ég grátbað hann um að hætta og ég var farinn að undurbúa mig að ég kæmist ekki úr lyftunni,“ sagði Brostrom í viðtali við CNN. Hún segir að henni hafi verið boðið stöðuhækkun ef hún samþykkti afsökunarbeiðni af hálfu Loures. Þá segir hún einnig að Sameinuðu þjóðirnar hafi ekki tekið ásakanir hennar alvarlega.

Loures neitar sök. Hann segist hafa tekið fullan þátt í rannsókn Sameinuðu þjóðanna á ásökunum Brostrom. Niðurstaða rannsóknarinnar var sú að ásakanir hennar ættu ekki við rök að styðjast. Brostrom segir hins vegar að rannsóknin hafi ekki verið nægilega vel framkvæmd.

Loures mun hætta störfum fyrir Sameinuðu þjóðirnar í vikunni þegar samningur hans rennur út. Talsmaður SÞ segir að það hafi verið ákvörðun hans að láta af störfum og talsmaður UNAIDS segir að rannsóknin hafi verið eðlileg og að Brostrom sé velkomið að áfrýja niðurstöðu hennar.

Brostrom er þriðja konan sem sakað hefur Loures um kynferðislega áreitni eða ofbeldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×