Golf

Tiger slapp í gegnum niðurskurðinn │ Reed leiðir

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Það munaði ekki miklu að Tiger sæti eftir með súrt ennið
Það munaði ekki miklu að Tiger sæti eftir með súrt ennið Vísir/Getty
Tiger Woods slapp í gegnum niðurskurðinn á Mastersmótinu í golfi í kvöld. Patrick Reed leiðir mótið á níu höggum undir pari.

Woods fór fyrsta hringinn á einu höggi yfir pari og lék annan hringinn í dag á þremur höggum yfir pari og er því samtals á fjórum höggum yfir pari. Niðurskurðarlínan var við fimm högg yfir pari og því munaði aðeins tveimur höggum að Tiger væri úr leik.





Bandaríkjamaðurinn Reed er með tveggja högga forystu á toppnum eftir að hafa farið annan hringinn á sex höggum undir pari. Hann er samtals á níu höggum undir pari. Með spilamennsku sinni í dag náði Reed besta skori á 36 holum í sögu Mastersmótsins.

Jordan Spieth, sem leiddi mótið í byrjun annars keppnisdags, lauk leik í dag á tveimur höggum yfir pari og er samtals á fjórum höggum undir pari, líkt og Norður-írinn Rory McIlroy.





Marc Leishman frá Ástralíu er í öðru sæti á sjö höggum undir pari. Hann fór hringinn í dag á 67 höggum, eða fimm höggum undir pari. Svíinn Henrik Stenson er á fimm undir pari í þriðja sæti.

Bubba Watson hefur lent í nokkrum vandræðum á fyrstu hringjunum tveimur, hann var á höggi yfir pari eftir fyrsta hring. Hann náði að vinna sig aðeins upp listann í dag og fór hringinn á þremur höggum undir pari og kláraði því á tveimur höggum undir jafn í níunda sæti.





Ríkjandi meistari Sergio Garcia komst ekki í gegnum niðurskurðinn en hann varð í 85.-86. sæti af 87. keppendum á 16 höggum yfir pari. Hræðileg 15. hola í gær þar sem hann fór á 13 höggum gerði útslagið fyrir Garcia á mótinu.

Bein útsending frá þriðja keppnisdegi hefst klukkan 19:00 á Golfstöðinni annað kvöld.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×