Nótt Thorberg, framkvæmdastjóri Marel á Íslandi, segir alla starfsmenn Marel, sem voru mættir til vinnu í húsnæði Geymslna í morgun, hafa komist út heilu og höldnu. Mikill eldur kviknaði í húsnæðinu á níunda tímanum í morgun.
Marel leigir skrifstofuhúsnæði af Geymslum fyrir 50 starfsmenn sína af 650 í Garðabæ en höfuðstöðvar fyrirtækisins standa við hlið Icewear og Geymslna að Miðhrauni 4.
„Þetta gerist upp úr átta og það komust allir út. Það er búið að taka manntal og það eru allir óhultir, það er það sem skiptir mestu máli,“ segir Nótt í samtali við Vísi.
Aðspurð segir Nótt að Marel haldi úti starfsemi sem lýtur að þróun á framleiðsluhugbúnaði í húsnæðinu. Hún segir ekki tímabært að ræða mögulegt tjón vegna eldsvoðans.
Þá segir hún fyrirtækið og starfsmenn þess í nánu samstarfi við slökkvilið og lögreglu en fólk í nágrenni brunans hefur verið beðið um að loka gluggum, hækka í ofnum og halda sig frá vettvangi.
Framkvæmdastjóri Marel: „Það komust allir út“

Tengdar fréttir

Íbúar á Álftanesi loki gluggum og hækki í ofnum
Slökkviliðið óskar eftir því að íbúar á Álftanesi loki gluggum og hækki hita á ofnum vegna stórbrunans í Garðabæ.

Græjur Björgvins og búslóð Svölu gætu orðið eldinum að bráð
Söngvarinn Björgvin Halldórsson er einn þeirra sem er með geymslurými á leigu í húsnæði fyrirtækisins Geymslur ehf, sem nú stendur í ljósum logum við Miðhraun í Garðabæ.

Telja allar líkur á að húsið sé ónýtt
Eigandi stærsta hluta hússins virðist hafa afskrifað það.