Körfubolti

Dwayne Wade skólaði til krakkana í Philadelphiu | Myndbönd

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Dwayne var í stuði.
Dwayne var í stuði. vísir/getty
Dwayne Wade sneri aftur klukkunni í nótt þegar að hann var í allt í öllu í glæsilegum útisigri Miami Heat gegn Philadelphia 76ers, 113-103, í einvígi liðanna í átta liða úrslitum austurdeildar NBA.

Staðan í einvíginu er nú jöfn, 1-1, en fæstir bjuggust við því að Miami myndi gera eitthvað í rimmunni en Wade og félagar voru í nótt að rjúfa 17 leikja sigurgöngu Sixers-manna.

Hinn 36 ára gamli Wade, sem þrívegis hefur orðið NBA-meistari, sýndi sparihliðarnar og skoraði 28 stig á 26 mínútum auk þess sem að hann tók sjö fráköst. Hann skoraði ekki þriggja stiga körfu í leiknum en hitti úr ellefu af 16 skotum sínum úr teignum.

Sixers er enn þá án Joel Embiid en nú styttist í hann þannig að sigurinn í nótt var mikilvægur fyrir Heat-liðið. Ben Simmons var stigahæstur hemiamanna með 24 stig en Dario Saric skoraði 23 stig.

Í vestrinu vann Golden State annan sigur á San Antonio Spurs og er yfir í rimmunni, 2-0. Það gæti vel farið svo að Spurs-liðinu verði hreinlega sópað í sumarfrí en lokatölur í nótt, 116-101.

Kevin Durant var nánast óstöðvandi með 32 stig, sex fráköst og se stoðsendingar en Klay Thompson fór líka mikinn með 31 stig, þar af fimm þriggja stiga körfur. LaMarcus Aldridge skoraði 34 stig og tók tólf fráköst fyrir San Antonio Spurs.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×