Fótbolti

Bjarni Þór er lamaður á vinstri handlegg

Einar Sigurvinsson skrifar
Bjarni Þór Viðarsson í leik gegn Stjörnunni.
Bjarni Þór Viðarsson í leik gegn Stjörnunni. vísir/Stefán
„Þetta eru frekar leiðinleg meiðsli. Það hefði verið betra að fótbrotna í staðinn fyrir þessa óvissu," sagði Bjarni Þór Viðarsson, leikmaður FH, í viðtali við vefinn Fótbolti.net í gær, en hann er tímabundið lamaður á vinstri handlegg.

Hann mun hugsanlega missa af fyrstu mánuðunum á tímabilinu vegna meiðslanna sem hann varð fyrir í leik gegn Selfossi í Lengjubikarnum.

„Ég fór úr axlarlið. Það eru tveimur mánuðir síðan þetta gerðist og ég er kominn með kraft í höndina en fyrsta mánuðinn gat ég ekkert notað höndina. Þetta er allt á réttri leið svo sem."

„Höggið var það slæmt að taugarnar fóru í eitthvað rugl. Fyrst þegar ég talaði við læknanna þá sögðu þeir sex til átta vikur, það eru að verða komnar átta vikur og nú eru þeir búnir að lengja þetta upp í 12 vikur."

Pepsi deildin hefst í lok þessa mánaðar og vonast Bjarni til þess að geta komið inn í FH-liðið fyrr en síðar.

„Ég býst við því að vera eitthvað með í sumar en ég veit það ekki almennilega. Þetta er óþægilegt, þetta er ekki eins og fótbrotna, þú veist ekki neitt. Ég er að reyna að gera allt sem ég get.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×