Samningsdrög sem unnin voru af fulltrúum ljósmæðra og Sjúkratryggingafélags Íslands eru „algjörlega óásættanleg“ að mati ljósmæðra. Þetta er niðurstaða fundar í gærkvöld, þar sem ljósmæður ræddu samningsdrögin sem unnin voru fyrr um daginn.
Í rökstuðningi sínum segja ljósmæður að í drögunum leggi heilbrigðisráðuneytið til skerðingu við þjónustu við sængurkonur „til að unnt sé að hækka laun ljósmæðra og voru skilaboðin sú að ekki yrði sett meira fjármagn í þessa þjónustu,“ eins og það er orðað í tilkynningu.
„Sem málsvarar kvenna og nýfæddra barna þeirra geta ljósmæður ekki sætt sig við að þjónustan sé skert á þennan hátt og ekki sé unnt að tryggja öryggi þeirra á fyrstu sólahringum eftir fæðingu með þessu móti. Heimaþjónusta ljósmæðra er í lykilhlutverki til að tryggja heilsu nýfæddra barna og að koma í veg fyrir innlagnir á fyrstu dögum ævinnar,“ segja ljósmæður.
Framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítalnum sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að um tuttugu ljósmæður af þeim 150 sem starfa í þeirra röðum hafa sagt upp og taka fyrstu uppsagnirnar gildi hinn 1. júlí. Þar er nú í gildi neyðaráætlun vegna aðgerða ljósmæðra en áður höfðu allar þær 95 heimaþjónustuljósmæður sem skráðar eru í það starf á landinu lagt niður störf.
![](https://www.visir.is/vaktin/content/flags/2017-09-07T144452.760Z-haukar.png)
![](https://www.visir.is/vaktin/content/flags/2025-02-14T125946.545Z-2021-10-15T150140.503Z-Jeruzalem_Ormoz.png)