Erlent

Forsætisráðherra Armeníu segir af sér í skugga fjöldamótmæla

Kjartan Kjartansson skrifar
Mótmælin gegn kjöri Sargsyan hófust 13. apríl og hafa verið haldin daglega síðan.
Mótmælin gegn kjöri Sargsyan hófust 13. apríl og hafa verið haldin daglega síðan. Vísir/AFP
Serzh Sargsyan, forsætisráðherra Armeníu, segist ætla að stíga til hliðar til að koma á friði í landinu í kjölfar mikilla mótmæla gegn stjórn hans. Sargsyan hefur verið sakaður um að reyna að framlengja völd sín í landinu sem hann hefur stjórnað sem forseti í áratug.

Dagleg götumótmæli gegn Sargsyan hafa verið haldin frá því áður að þing landsins tilnefndi hann sem forsætisráðherra 17. apríl. Nýleg stjórnarskrárbreyting þýðir að embætti forsætisráðherra er nú það valdamesta í Armeníu en forsetaembættið er nú að mestu leyti táknrænt.

Washington Post segir að stjórnarandstæðingar saki Sargsyan um að hafa breytt lögum til þess að hann geti setið áfram við völd um ókomin ár.

Sargsyan er sagður náinn bandamaður Vladímírs Pútín, forseta Rússlands, en Armenía er fyrrum Sovétlýðveldi. Róðurinn þyngdist fyrir hann þegar óvopnaðir hermenn slógust í hóp mótmælenda í höfuðborginni Jerevan, að sögn Reuters-fréttastofunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×