Erlent

Norðmaðurinn sem grunaður er um njósnir játar að vera sendiboði

Birgir Olgeirsson skrifar
Frode Berg birti mynd af sér á snæviþöktu Rauða torginu í Moskvu daginn sem hann var handtekinn í desember síðastliðnum.
Frode Berg birti mynd af sér á snæviþöktu Rauða torginu í Moskvu daginn sem hann var handtekinn í desember síðastliðnum. Vísir/Gety
Norðmaðurinn Frode Berg, sem er sakaður um njósnir í Rússlandi, hefur játað að hafa verið sendiboði fyrir norska herinn.

Greint er frá þessu á vef Reuters en þar segir að Berg, sem starfaði áður sem vörður við landamæri Noregs og Rússlands, hafi verið í haldi síðan hann var handtekinn í Moskvu í desember síðastliðnum. Lögmaður hans segir Berg hafa haft litla vitneskju um þá aðgerð sem hann tók þátt í fyrir hönd norska hersins í Rússlandi.

„Við erum nokkuð vissir um að það sem hann gerði í Rússlandi var hluti af verkefni fyrir norsku leyniþjónustuna,“ er haft eftir lögmanni Berg, Brynjulf Risnes.

Lögmaðurinn sagði að Berg væri þeirrar skoðunar að þeir sem sendu hann í þetta verkefni hefðu brugðist honum.

„Hann var ekki með fullan skilning á hversu hættuleg þessi sendiför gat orðið,“ er haft eftir Risnes.

Þegar Berg var handtekinn var hann með þrjú þúsund evrur á sér, tæpar 370 þúsund íslenskar krónur miðað við gengi dagsins í dag, en rússnesk yfirvöld höfðu þann grun að Berg ætlaði að koma peningunum til rússnesks manns í skiptum fyrir upplýsingar um kafbátaflota Rússa.

Daginn sem Berg var handtekinn, 5. desember síðastliðinn, birti hann mynd af Rauða torginu í Moskvu á Facebook-síðu sinni og skrifaði við hana: „Jól í Moskvu!“

Harðasta refsingin fyrir njósnir í Rússlandi er 20 ára fangelsisvist en vægasta refsingin er tíu ára fangelsisvist.

Reuters segir norska herinn hafa neitað að tjá sig um málið en utanríkisráðuneyti Noregs hefur gefið út að það útvegi Berg aðstoð. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×