Körfubolti

Houston og Golden State bæði komin áfram

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Chris Paul í leiknum í nótt.
Chris Paul í leiknum í nótt. Vísir/Getty
Chris Paul er kominn í úrslitarimmu vesturdeildarinnar í NBA-deildarinnar í fyrsta sinn á ferlinum en lið hans, Houston Rockets, vann í nótt sigur á Utah Jazz, 112-102, og þar með 4-1 sigur í rimmu liðanna.

Houston mætir meisturunum í Golden State Warriors í lokaúrslitum vesturdeildarinnar en Golden State hafði í nótt betur gegn New Orleans Pelicans, 113-104, og þar með 4-1 í einvíginu.

Rimma liðanna um sigur í austrinu og sæti í l lokaúrslitunum hefst aðfaranótt þriðjudags í næstu viku, klukkan eitt eftir miðnætti.

Paul fór á kostum í nótt en auk þess að skora 41 stig, þar af átta þriggja stiga körfur, var hann með tíu stoðsendingar og sjö fráköst. Paul er á sínu fyrsta tímabili með Houston en hefur sjö sinnum á síðustu níu árum fallið úr leik í annarri umferð úrslitakeppninnar með liðum sínum.

Nýliðinn Donovan Mitchell skoraði 24 stig fyrir Utah í nótt, þar af 22 í þriðja leikhluta. Hann þurfti þó að fara af velli vegna meiðsla í fjórða leikhluta og munaði um minna.

Houston er komið áfram í úrslit austursins í fyrsta sinn síðan 2015.



Í hinni viðureign næturinnar fóru þeir Stephen Curry og Kevin Durant á kostum í liði Golden State og skoruðu samanlagt 52 af 113 stigum liðsins gegn New Orleans. Draymond Green var einnig öflugur og var með nítján stig, fjórtán fráköst og níu stoðsendingar.

Golden State gerði út um leikinn með 25-4 spretti í upphafi síðari hálfleiks. New Orleans náði aldrei að brúa aftur bilið en stigahæstur hjá liðinu var Anthony Davis með 34 stig og nítján fráköst. Jrue Holiday var með 27 stig, tíu fráköst og ellefu stoðsendingar en það dugði ekki til.

Golden State á nú möguleika að komast í lokaúrslit NBA-deildarinnar fjórða tímabilið í röð.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×