Í grein í Bæjarins besta segir sveitarstjóri Súðavíkurhrepps, Pétur Markan, að nýjustu vendingar í Árneshreppi á Ströndum séu gróft inngrip í kosningaferli, sem allir sveitarstjórnarmenn hljóti að fordæma. Sem formaður Fjórðungssambandsins, sem nú er runnið inn í Vestfjarðastofu, er Pétur helsti talsmaður Vestfirðinga:
„Þetta er aðför að sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélags, sem er sennilega það helgasta sem hvert sveitarfélag heldur á. Þannig að þetta eru alvarlegir atburðir. Og það eru ekki bara sveitarstjórnarmenn á Vestfjörðum, - ég held að allir sveitarstjórnarmenn séu hugsi þessa dagana og horfa til síns eigin sveitarfélags og hugsa með hryllingi ef þetta væri mögulegt," segir Pétur í viðtalinu á Bylgjunni.
Herlög hafi verið sett á fyrir minna
„Ég hugsa að það færi um Reykvíkinga ef það yrðu fjörutíu þúsund málamyndaskráningar í Reykjavík af landsbyggðinni til þess að hafa áhrif á veru flugvallarins í Vatnsmýrinni. Mér segir svo hugur að það væri, - jafnvel herlög hafa verið sett á fyrir minna, sko.”Pétur segir þetta lýsa virðingarleysi fyrir íbúum Árneshrepps og fádæma dómgreindarleysi þeirra sem telja gjörninginn vera náttúruvernd til framdráttar.
„Þetta er ekki spurning um hvort menn séu með eða á móti Hvalárvirkjun eða öðrum umdeildum verkefnum. Heldur að þarna er verið með skipulögðum hætti að reyna að taka yfir sveitarfélag og gera aðför að sjálfsákvörðunarrétti. Það er og verður ekki liðið," segir Pétur Markan, formaður Vestfjarðastofu.