Körfubolti

Magnaður sigur Golden State og meistararnir í lokaúrslitin

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Curry fagnar eftir sigurinn í nótt.
Curry fagnar eftir sigurinn í nótt. Getty
Golden State Warriors tryggði sér í nótt sæti sigur í vesturdeild NBA-deildarinnar með sigri á Houston Rockets í oddaleik, 101-92, í úrslitarimmu liðanna í vestrinu.

Í fyrrinótt tryggði Cleveland Cavaliers sér sigur í austurdeildinni með sigri á Boston Celtics, einnig í oddaleik. Það verða því Golden State og Cleveland sem mætast í lokaúrslitum NBA-deildarinnar fjórða árið í röð.

Golden State hefur unnið í tvö skipti af þremur sem þessi lið hafa mæst í lokaúrslitunum en Cleveland vann árið 2016.

Houston byrjaði betur í leiknum í nótt og var með ellefu stiga forystu í hálfleik, 101-92. En lykillinn að velgengni Golden State í allan vetur, og ekki síst í úrslitakeppninni, hefur verið öflug frammistaða í þriðja leikhluta og var það einnig tilfellið í nótt.



Golden State vann þriðja leikhlutann með átján stiga mun og leit ekki um öxl. Stephen Curry fór fyrir sínum mönnum og skoraði fjórtán stig - þar af fjórar þriggja stiga körfur í fimm tilraunum. Sóknarleikur Houston molnaði að sama skapi í leikhlutanum og leikmenn liðsins klikkuðu á öllum fjórtán þriggja stiga skotunum sínum í þriðja leikhluta.

Alls klikkaði Houston á 27 þriggja stiga skotum í röð í leiknum sem er met í sögu úrslitakeppni NBA-deildarinnar. Þriggja stiga nýting liðsins í leiknum endaði í sjö körfum í 44 skotum.



Chris Paul spilaði ekki með Houston í nótt vegna meiðsla, rétt eins og í síðasta leik á undan. Í fjarveru hans skoraði James Harden 32 stig auk þess sem hann tók sex fráköst og gaf sex stoðsendingar. En hann nýtti aðeins tólf af 29 skotum sínum í leiknum - þar af tvö af tólf þriggja stiga skotum.

Kevin Durant var stigahæstur hjá Golden State með 34 stig og Curry skoraði 27 stig.

Fyrsti leikur í lokaúrslitum NBA-deildarinnar verður aðfaranótt föstudags klukkan 01.00 og verður hann sýndur beint á Stöð 2 Sport.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×