Uppljóstraramálið er forseta hugleikið. Ákvað hann meðal annars um helgina að krefjast þess að dómsmálaráðuneyti hans rannsakaði þessar „njósnir“ alríkislögreglunnar og spurði hvort Barack Obama, fyrrverandi forseti, hefði fyrirskipað aðgerðirnar. Þá hefur Trump fullyrt að uppljóstrarinn hafi komið sér inn í framboðsteymið áður en hin svokallaða Rússarannsókn hófst, aðgerðin hafi sem sagt verið í pólitískum tilgangi, en samkvæmt The New York Times er sú fullyrðing röng.
„Sjáið bara hvernig þetta hefur snúist í höndunum á hinu glæpsamlega djúpríki. Það reynir að elta falsað samráð við Rússa, uppskáldað svindl, og er síðan gripið glóðvolgt í risavöxnu NJÓSNAhneyksli af stærðargráðu sem þetta land hefur jafnvel aldrei séð áður,“ tísti Trump og hélt áfram: „SPYGATE gæti orðið eitt stærsta pólitíska hneykslismál allra tíma.“
SPYGATE could be one of the biggest political scandals in history!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) May 23, 2018
Til fundardagsins var boðað eftir að forseti kallaði Christopher Wray alríkislögreglustjóra og Rod Rosenstein varadómsmálaráðherra á sinn fund til að krefjast rannsóknar á málinu sem forseti kallar Spygate.
Þá er fundurinn einnig haldinn í tengslum við stefnu þingmannsins Devins Nunes. Sá krafðist þess að öll skjöl um uppljóstrarann, bandarískan fræðimann, yrðu afhent upplýsingamálanefnd neðri deildar þingsins. Þeirri beiðni var í upphafi hafnað en vegna þrýstings Trumps er ljóst að Repúblikanar fá allavega hluta skjalanna í hendurnar.
Demókratar hafa ítrekað gagnrýnt Nunes fyrir að reyna að grafa undan rannsókn Muellers með kröfum sínum og fullyrðingum um samsæri gegn forsetanum. Hafa meðal annars sagt Nunes misnota stöðu sína sem formaður upplýsingamálanefndarinnar. Þá hafa Demókratar lýst yfir óánægju með að vera skildir út undan á fundi dagsins.