Körfubolti

Þegar Jordan ákvað að niðurlægja Clyde Drexler

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Drexler reynir hér að stöðva Jordan í rimmu liðanna. Það gekk ekkert allt of vel.
Drexler reynir hér að stöðva Jordan í rimmu liðanna. Það gekk ekkert allt of vel. vísir/getty
Besti körfuboltamaður allra tíma, Michael Jordan, var einstakur keppnismaður og á því fékk Clyde Drexler að kenna fyrir 26 árum síðan.

Jordan og félagar í Chicago Bulls voru þá í úrslitaeinvígi NBA-deildarinnar gegn Portland Trail Blazers. Jordan mætti óeðlilega grimmur til leiks því fjölmargir voru að halda því fram að stjarna Portland, Clyde Drexler, væri á sama plani og Jordan.

Það fór ekki vel í Jordan sem ákvað að láta Drexler finna fyrir því og sýna heiminum að hann væri langt frá því að vera í sama klassa.

„Þetta var mjög persónulegt fyrir Jordan. Fullkomin áskorun fyrir mann sem þurfti stanslaust á áskorunum að halda. Hann setti sér það markmið að bæði slátra Portland og Drexler,“ skrifaði David Halberstam í bók sinni um Jordan.





Danny Ainge var leikmaður Portland á þessum tíma og hann segir að það sé ómannlegt sem hafi átt sér stað í þessari rimmu.

„Drexler byrjaði á því að gefa honum frítt skot fyrir utan og Michael setti því sex þrista í röð í andlitið á honum,“ sagði Ainge en fagnið eftir sjötta þristinn er ógleymanlegt og má sjá hér að ofan.

Ainge sagðist hafa upplifað að óvild Jordan í garð Drexler hefði verið persónuleg. Jordan leyfði Drexler varla að snerta boltann í sókninni.

„Það var eins og Jordan hefði tekið öllum blaðaskrifunum sem persónulegri móðgun. Þetta var eins og að fylgjast með morðingja á vellinum. Leyniskytta sem kemur til þess að drepa þig og rífur svo úr þér hjartað.“

Bulls var miklu betra liðið og vann seríuna í sex leikjum. Það var þó ekki nóg því um sumarið fór Draumaliðið í fyrsta sinn á Ólympíuleikana fyrir Bandaríkin. Þar hélt Jordan áfram að gera Drexler lífið leitt með stanslausu ruslatali um að Drexler gæti ekki stöðvað hann.

Á endanum urðu aðrir leikmenn að biðja Jordan um að hætta að snúa hnífnum í sári Drexler. Hann varð við því en á öllum æfingum er hann spilaði vörn gegn Drexler lagði hann sig meira fram en venjulega á æfingunum. Jordan gat ekki hætt að sýna Drexler að hann væri miklu betri leikmaður sem hann vissulega var.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×