Fulltrúar Norður-Kóreu lýsa nýafstöðnum viðræðum sínum við Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og sendinefnd hans sem „hörmulegum“. Pompeo hafði skömmu áður sagt að viðræðurnar hefðu verið „gagnlegar“.
AP-fréttastofan hefur eftir talsmanni norður-kóreska utanríkisráðuneytisins að Bandaríkin hefðu „svikið anda“ leiðtogafundar Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu, og Donalds Trump Bandaríkjaforseta, í síðasta mánuði í viðræðum síðustu tvo daga. Það hefðu þau gert með því að setja „einhliða þrýsting“ um algera afkjarnavopnavæðingu Norður-Kóreu.
Í yfirlýsingu talsmannsins sagði að niðurstöður viðræðnanna yllu „miklum áhyggjum“ þar sem þær leiddu til hættulegs skeiðs þar sem vilji norður-kóreskra stjórnvalda til að afvopnast gæti minnkað en hann hefði fram að þessu verið staðfastur.
Annað hljóð var í Pompoe þegar hann ávarpaði fréttamenn á leið sinni heim frá viðræðunum sem fóru fram í Norður-Kóreu. Viðræðurnar hefðu verið gagnlegar og farið fram „í góðri trú“. Mikill árangur hefði náðst á sumum sviðum þótt enn væri mikið verk fyrir höndum á öðrum sviðum.
Trump forseti gekk sjálfur svo langt eftir fund sinn með Kim að fullyrða að kjarnavopnahætta stafaði ekki lengur af Norður-Kóreu. Í vikunni stærði hann sig af því að hafa komið í veg fyrir stríð á Kóreuskaga.
Norður-Kóreumenn kalla viðræður við Bandaríkin „hörmulegar“

Tengdar fréttir

Trump vendir kvæði sínu í kross um hættuna af Norður-Kóreu
Eftir fund sinn með Kim fullyrti Trump að engin hætta væri lengur af kjarnavopnum Norður-Kóreu. Í gær sagði hann þveröfugt við Bandaríkjaþing.

Halda áfram uppbyggingu kjarnorkuvers þrátt fyrir loforð um afvopnun
Norður Kóreumenn halda áfram uppbyggingu kjarnorkuversins í Yongbyun.

Aukin plútónframleiðsla Norður-Kóreu sögð ótengd friðarumleitunum
Gervihnattamyndir sýna að ekkert hlé hefur orðið á kjarnorkuáætlun Norður-Kóreu þrátt fyrir nýlegar friðarumleitanir.

Trump segist hafa afstýrt stríði á Kóreuskaganum
Donald Trump Bandaríkjaforseti segir að stríð myndi ríkja á milli Bandaríkjanna og Norður-Kóreu ef sín hefði ekki notið við.