Viðskipti innlent

Vinnur að því að eignast Jamie's Italian að fullu

Helgi Vífill Júlíusson skrifar
Tap á veitingastaðnum Jamie's Italian við Pósthússtræti var 86 milljónir króna í fyrra. Eigið fé var neikvætt um 85 milljónir króna.
Tap á veitingastaðnum Jamie's Italian við Pósthússtræti var 86 milljónir króna í fyrra. Eigið fé var neikvætt um 85 milljónir króna. frÉttablaðið/Anton Brink
Jón Haukur Baldvinsson vinnur að því að eignast veitingastaðinn Jamie’s Italian á Hótel Borg að fullu. Hann staðfestir það í samtali við Markaðinn. Viðræður standa yfir við eigendur félaga sem fara fyrir 60 prósenta hlut í staðnum, samkvæmt upplýsingum úr ársreikningi. Um er að ræða Birgi Þór Bieltvedt, Sigurgísla Bjarnason og Stefán Örn Melsted. Þeir eiga saman veitingastaðina Snaps við Týsgötu og Kaffi París við Austurvöll.

Jón Haukur segir í samtali við Markaðinn að kaupin séu „í farvegi“ og þeim sé ekki lokið. Veitingastaðirnir Kaffi París og Jamie’s Italian hafi verið opnaðir um svipað leyti og það fari mikill tími í að sinna rekstri hvors staðar fyrir sig. „Við höfum því velt fyrir okkur hvort það ætti ekki að aðskilja rekstur veitingastaðanna,“ segir Jón Haukur.

Jamie’s Italian var opnaður í júlí í fyrra. Hann tapaði 85,5 milljónum króna það ár og eigið féð var neikvætt um 85 milljónir króna við áramót, samkvæmt ársreikningi Borgarhorns. Skuldir félagsins námu 258 milljónum króna við árslok. Þar af voru skuldir við lánastofnanir 97 milljónir og viðskiptaskuldir 102 milljónir króna. Veltan var 346 milljónir króna í fyrra. Launakostnaður er stærsti útgjaldaliðurinn, 240 milljónir króna, og stöðugildin voru 33. Allur rekstrarkostnaður var 425 milljónir króna. Innréttingar og húsbúnaður voru keypt fyrir 100 milljónir króna í fyrra og áhöld og tæki fyrir 39 milljónir króna.




Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×