Erlent

Telur íhaldsmenn opna fyrir annarri Brexit-kosningu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Justine Greening segir að enginn sé sáttur með samkomulagið sem liggur fyrir þinginu.
Justine Greening segir að enginn sé sáttur með samkomulagið sem liggur fyrir þinginu. Vísir/getty
Justine Greening, fyrrverandi menntamálaráðherra Bretlands í ríkisstjórn Theresu May, kallar eftir því að kosið verði aftur um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Í grein sem hún skrifar í stórblaðið Times í dag segist Greening þekkja til annarra þungavigtarmanna í Íhaldsflokknum sem séu á sama máli.

Greening, sem lýst er sem miklum áhrifamanni í stjórnarflokknum, segir að núverandi stefna í Brexit-málum, sem kristallast í samkomulagi sem kynnt var í síðustu viku, hugnist ekki neinum. Bæði þeir sem vilji útgöngu sem og stuðningmenn aðildar séu ósáttir við samkomulagið. Ráðherrann fyrrverandi segir að í raun sé aðeins þrennt í stöðunni fyrir Breta: Fylgja hinni óvinsælu stefnu Theresu May, segja sig úr Evrópusambandinu án samnings eða kjósa um útgönguna á ný.

Greening hallast sem fyrr segir að síðasta möguleikanum. Hún segir að Brexit sé komið í algjöran hnút og að eina leiðin til að koma því aftur á skrið sé að endurnýja umboð stjórnmálamannanna sem komið hafi málinu á þennan stað. Greening leggur til að kosið verði um valmöguleikana þrjá sem nefndir eru hér að ofan. Hún leggur til að kosið verði í tveimur umferðum til að tryggja meirihlutastuðning.

Ná Brexit frá flokksgæðingunum

„Ég er einfaldlega að benda á það sem allir sjá í þinginu,“ sagði Greening í samtali við breska ríkisútvarpið í morgun. Aðspurð um hvort að hún telji að leiðin sem hún leggi til njóti stuðnings annarra í Íhaldsflokknum segir hún: „Já, ég held það.“

Greening segir að fyrrnefnd áætlun forsætisráðherrans sé svo gott sem dauð. Áætlunin sé „einlæg og snjöll málamiðlun,“ en engu að síður sé hún gjörsamlega óframkvæmanleg - ekki síst vegna þess að „allir“ séu ósáttir við hana.

Greening telur það til mikils vansa fyrir Brexit-ferlið að það skuli verið unnið eftir flokkslínum. Málið er að hennar mati þverpólitískt og því gæti þjóðaratkvæðagreiðsla vrerið góð leið til að hrifsa þetta stóra hagsmunamál úr höndum flokksgæðinganna.

„Við þurfum ekki meiri tíma. Við þurfum skýra stefnu sem við getum fylgt eftir,“ segir Greening.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×