Innlent

Draga úr skatt­frelsi fólks sem safnar í­búðum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Með aðgerðum sínum vill ríkisstjórnin vinna gegn því að hinir ríku fjárfesti í fasteignum í stað þess að fjárfesta í hlutum sem styðja betur við verðmætasköpun.
Með aðgerðum sínum vill ríkisstjórnin vinna gegn því að hinir ríku fjárfesti í fasteignum í stað þess að fjárfesta í hlutum sem styðja betur við verðmætasköpun. Vísir/Vilhelm

Ríkisstjórnin ætlar að draga úr hvata vel stæðra til að safna íbúðum og festa skráningarskyldu leigusamninga í röð. Þá fá sveitarfélög heimild til að leggja álag á fasteignagjald á byggingalóðir sem eru látnar standa auðar í þéttbýli.

Þetta er meðal þess sem fram kom á blaðamannafundi þriggja ráðherra og borgarstjóra í Úlfarsárdal síðdegis þar sem fyrsti húsnæðispakki stjórnarinnar var kynntur.

Í tilkynningu frá ríkisstjórninni kemur fram að ýmsir hvatar séu til staðar hjá hinu opinbera sem beini sparnaði fólks inn á húsnæðismarkað í stað annarrar fjárfestingar sem styðji betur við verðmætasköpun.

„Slíkir hvatar eru bæði skattalegir og í regluverki í húsnæðiskerfinu sjálfu. Með því að draga úr hvatanum til að safna íbúðum er unnið gegn þenslu á húsnæðismarkaði og háu húsnæðisverði. Á sama tíma er það gert eftirsóknarverðara fyrir fólk að fjárfesta með hætti sem styður betur við verðmætasköpun.“

Skattfrelsi við sölu og leigu minnkar

Í fyrsta húsnæðispakka ríkisstjórnarinnar eru nokkrar aðgerðir í þessa veru. Til að mynda á að draga úr skattfrelsi söluhagnaðar fólks sem á margar íbúðir frá og með 1. janúar 2027. Ekki er nánar skýrt hve mikið eða hratt dregið verði úr skattfrelsinu.

„Með þessum tímafresti gefst tækifæri til aðlögunar. Í reynd er söluhagnaður íbúðarhúsnæðis nú nær alfarið undanþeginn skattlagningu. Aðeins 0,2% af söluhagnaði einstaklinga af íbúðarhúsnæði var skattlagður árið 2024. Þá verður dregið úr afslætti frá fjármagnstekjuskatti vegna leigutekna sem fer úr 50% afslætti í 25%.“

Álag heimilað á auðar lóðir

Á undanförnum árum hafi sveitarfélög kallað eftir heimildum til að hvetja til íbúðauppbyggingar á byggingarlóðum sem þegar hefur verið úthlutað.

„Þegar verðhækkanir eru á fasteignamarkaði getur skapast hvati til að fresta íbúðauppbyggingu á lóð sem þegar hefur verið úthlutað. En á meðan verður sveitarfélagið af væntum tekjum vegna útsvarsgreiðslna og annarra umsvifa sem fylgja fleiri íbúum. Þess vegna verður sveitarfélögum nú heimilað að leggja álag á fasteignagjald á byggingarlóðir sem eru látnar standa auðar í þéttbýli.“

Áréttað er að um heimild sé að ræða en ekki skyldu.

Takmörkun á Airbnb

Fyrir Alþingi liggur frumvarp um skráningarskyldu leigusamninga. Með því á að koma í veg fyrir að leiguverð sé hækkað á fyrstu tólf mánuðum tímabundinna leigusamninga.

„Fyrir Alþingi liggur einnig frumvarp sem takmarkar skammtímaleigu, á borð við útleigu á Airbnb, við lögheimili og eina aðra fasteign utan þéttbýlis. Í því frumvarpi er einnig kveðið á um að ótímabundin rekstrarleyfi til skammtímaleigu í íbúðarhúsnæði umfram 90 daga verði gerð tímabundin innan 5 ára.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×