Innlent

Sigldu í næstum hálfan sólarhring en báturinn enn fastur

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Björgunarsveitarskipið Gunnar Friðriksson í höfn á Ísafirði.
Björgunarsveitarskipið Gunnar Friðriksson í höfn á Ísafirði. Vísir/Pjetur
Gunnar Friðriksson, björgunarskip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á Ísafirði, var kallað út á níunda tímanum í gærkvöldi vegna báts sem strandað hafði í Þaralátursfirði. Eigendur bátsins, sem var mannlaus, tilkynntu um hann í firðinum.

Halldór Óli Hjálmarsson er í svæðisstjórn hjá björgunarsveitinni á Ísafirði. Hann segir í samtali við Vísi að um hafi verið að ræða smábát í eigu sumarbústaðareigenda í grennd við Þaralátursfjörð. Bátinn rak upp í fjöru og sat hann þar fastur þegar fólkið óskaði eftir aðstoð björgunarsveita við að losa hann.

Fjórir björgunarmenn héldu því í leiðangur á Gunnari Friðrikssyni vegna bátsins í gærkvöldi. Lagt var af stað um klukkan 20:30 í og ekki komið aftur á Ísafjörð fyrr en um klukkan 8 í morgun. Leiðangurinn tók því nær hálfan sólarhring en því miður hafðist lítið upp úr krafsinu.

„Þegar birti og féll að sáu þeir að það var ósköp lítið sem þeir gátu gert,“ segir Halldór. Björgunarmennirnir sneru því við og báturinn situr enn fastur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×