Nike tilkynnti í gær að NFL-leikstjórnandinn Colin Kaepernick væri nýtt andlit auglýsingaherferðar íþróttamerkisins Nike. Breska ríkisútvarpið BBC greinir frá þessu.
Kaepernick hefur vakið mikla athygli fyrir ötula baráttu gegn kynþáttamisrétti og lögregluofbeldi. Hann hefur til dæmis sýnt andóf með því að krjúpa á hné þegar bandaríski þjóðsöngurinn var sunginn fyrir leiki. Andófið hefur þó reynst Kaepernick dýrkeypt því NFL-liðin hafa sett hann út í kuldann.
Í tilkynningu sem Nike sendi frá sér er því haldið fram að Kaepernick sé á meðal áhrifamestu íþróttamönnum sinnar kynslóðar.
Believe in something, even if it means sacrificing everything. #JustDoIt pic.twitter.com/SRWkMIDdaO
— Colin Kaepernick (@Kaepernick7) September 3, 2018
Í tístum og stöðuuppfærslum hafa andstæðingar leikstjórnandans lýst því yfir að þeir hyggist eyðileggja og brenna Nike-vörurnar. Rúmlega 800 tíst undir myllumerkinu #JustBurnIt hafa birst á samskiptamiðlinum Twitter frá því tilkynningin var gefin út.
#JustBurnIt -have you burned your Nike gear? https://t.co/Io7iJITIMy
— Humanist Film (@HumanistFilm) September 4, 2018