Aðalmeðferð í málinu hófst þann 27. ágúst en frestað þar til eftir hádegi í dag. Dómsalurinn á Selfossi var þéttsetinn þegar Sebastian gaf skýrslu. Hann krufði líkið þann 3. apríl og sagði niðurstöðu sína að bráðaandnauð af völdum högga hefðu leitt til dauða Ragnars.
Annars vegar hefði verið um að ræða þung högg á höfuð og hins vegar á hægri síðu. Brotnuðu mörg rifbein hægra megin í líkama Ragnars.

Þegar Valur gaf skýrslu fyrir dómi í síðustu viku sagðist hann ekkert muna eftir neinum átökum á milli þeirra bræðra sökum mikillar ölvunar. Hann gat litlar skýringar gefið á því hvernig dauða Ragnars bar að. Útilokaði hann þó ekki að til átaka hefði komið á milli þeirra.
Geðlæknir sem lagði mat á Val telur að ölvunarástand hans skýri best ofbeldið sem hann hafi beitt. Bæði Valur og tveir vinir hans hafi kannast við að hann hafi gerst ofbeldisfullur undir áhrifum áfengis.
Nú stendur yfir málflutningur þar sem Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari og Ólafur Björnsson, verjandi Vals, fá hvort sinn tíma til að rekja málið. Reikna má með því að dómur verði kveðinn upp innan fjögurra vikna.