Stjórnvöld í Þýskalandi hafa náð samkomulagi við Ítalíustjórn um að flóttamenn sem hafi áður sótt um hæli á Ítalíu verði sendir aftur þangað. Frá þessu greinir þýski innanríkisráðherrann Horst Seehofer, en gert er ráð fyrir að ritað verði undir samkomulagið á næstu dögum.
Þýska stjórnin náði samkomulagi við stjórnvöld í Grikklandi og Spáni í síðasta mánuði um að allir þeir flóttamenn sem komi til Þýskalands eftir að hafa áður sótt um hæli í Grikklandi eða Spáni verði sendir aftur til baka innan tveggja sólarhringa.
Samkomulag Þýskalandsstjórnar við stjórnvöld í Miðjarðarhafsríkjunum er afleiðing málamiðlunar þeirra flokka sem saman mynduðu ríkisstjórn í Þýskalandi eftir kosningar, það er Kristilegra demókrata (CDU) og systurflokks hans í Bæjaralandi (CSU) og Jafnaðarmannaflokksins (SDP). CSU hafa barist fyrir að þýsk stjórnvöld herði stefnu sína í innflytjendamálum.
Þýska stjórnin vonast til að mál allra hælisleitenda sem komi til Þýskalands og hafi áður sótt um hæli í öðru aðildarríki ESB, fái flýtimeðferð og verði sendir til baka innan tveggja sólarhringja. Þetta krefst þó tvíhliða samninga milli ríkjanna tveggja sem um ræðir í hverju tilviki.
