Til að mynda sé ætlunin að viðskiptavinir geti nálgast upplýsingar um allar þær vörur sem fáanlegar eru í verslunarmiðstöðinni á heimasíðu Kringlunnar. Þá verða settir upp gagnvirkir upplýsingaskjáir í Kringlunni þar sem hægt verður að nálgast margvíslegar upplýsingar, til að mynda hvar hægt sé að fá tilteknar vörur.
Sigurjón segir að markmiðið sé að koma til móts við breytta kauphegðun fólks. Sífellt stærri hluti verslunar fer fram á netinu, eins og ný skýrsla Rannsóknarseturs verslunarinnar ber með sér. Engu að síður eigi kaupmennska sér áfram framtíð í „áþreifanlegum verslunum“ (e. brick and mortar), stafræn sókn Kringlunnar sé þannig tilraun til að samþætta þessa tvo anga verslunarinnar.
„Þegar fólk leitar sér að vörum, eins og buxum eða skóm, hefst leitin yfirleitt á Google. Það sem gerist með því að Kringlan verður stafræn er að hún verður hluti af þessari leit fólks á netinu, sem hún er ekki í dag,“ útskýrir Sigurjón. Þannig muni fólk geta séð hvort þær vörur sem það leitar að séu fáanlegar í Kringlunni. „Í dag færðu ekki það safn af vörum sem til eru í húsinu, undir hatti Kringlunnar. Því ætlum við að breyta,“ segir Sigurjón.

Ætla má að fjöldi vara sem sjáanlegur er á heimasíðu Kringlunnar muni ráðast á þátttöku kaupmannanna. Sigurjón undirstrikar þó að ávinningurinn fyrir viðskiptavini og kaupmenn sé gagnkvæmur. „Við erum að auðvelda báðum lífið; kaupmönnum að koma vörum á framfæri og viðskiptavininum að sjá vöruúrvalið og geta valið úr.“
Þá segir Sigurjón að húsið sjálft muni einnig taka á sig gagnvirka og stafræna mynd. Þannig verður komið upp skjám í Kringlunni þar sem viðskiptavinir geta fengið upplýsingar um þær vörur sem fáanlegar eru hverju sinni í húsinu. Þar að auki munu skjáir auðvelda fólki að komast leiðar sinnar í Kringlunni.
Stefnumótun um stafræna stefnu Kringlunnar var kynnt rekstraraðilum í fyrradag en ekki hafa fengist upplýsingar um hvenær áætlað sé að hún verði komin að fullu í gagnið.