Dómstóll í Árósum hefur dæmt danska ljóðskáldið Yahya Hassan til að leita sér aðstoðar vegna geðræns vanda. Hassan var ákærður fyrir 42 brot og játaði hann sök í þeim öllum.
Ljóðskáldið var meðal annars ákært fyrir að hafa ráðist á félaga sinn með brotinni glerflösku og hótað honum lífláti. Þá var hann einnig ákærður fyrir önnur ofbeldisbrot, hótanir, skemmdarverk og brot gegn nálgunarbanni.
Verjandinn Michael Juul Eriksen segir í samtali við DR að það sé undir lækni komið hvenær Hassan verði útskrifaður af geðdeild.
Afplánaði dóm fyrir skotárás
Yahya Hassan var úrskurðaður í gæsluvarðhald í júlí síðastliðnum og hefur dvalið á réttargeðdeild síðan. Fyrir tveimur árum var hann dæmdur í eins árs og níu mánaða fangelsi fyrir að skjóta sautján ára mann í fótinn í Árósum.
Hassan vakti mikla athygli þegar hann gaf út fyrstu ljóðabók sína árið 2013, þá átján ára að aldri. Ljóðabókin seldist í miklu magni en í henni lýsti hann uppvaxtarárum sínum í innflytjendahverfi í Árósum. Hann kom til Íslands árið 2014 til að kynna bók sína.
