Innlent

Baráttumál Öryrkjabandalagsins verða sett í kröfugerð VR

Elísabet Inga Sigurðardóttir og Sylvía Hall skrifa
Ragnar Þór Ingólfsson.
Ragnar Þór Ingólfsson. Vísir/Egill
Formaður VR segir að baráttumál Öryrkjabandalagsins verði settar i kröfugerð VR líkt og Efling hefur gert. Kröfur félaganna þriggja séu sambærilegar í komandi kjaraviðræðum.

Í gær fór fram sameiginlegur fundur Eflingar og Öryrkjabandalags Íslands um afkomu lágtekjufólks á Íslandi, út frá skattbyrði og skerðingum. Þar fjallaði Stefán Ólafsson, sérfræðingur Eflingar meðal annars um aukningu ójafnaðar.

„Ójöfnuðurinn hefur verið að aukast. Tekjur hærri hópanna hafa aukist mest en lægri hóparnir hafa setið eftir. Ef við berum okkur saman við hin Norðurlöndin er myndin sú að skattbyrði hátekjufólks er lægri á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum en skattbyrði lágtekjufólks er hærri á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum,“ sagði Stefán Ólafsson, sérfræðingur hjá Eflingu.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar sagði samstarf Öryrkjabandalagsins og Eflingar komið til að vera enda séu kröfur þeirra sambærilegar.

Ragnar Þór Ingólfsson segir að VR hugi einnig að samstarfi við Öryrkjabandalagið og mun stéttarfélagið setja baráttumál félagsins í kröfugerð VR.

„Við vitum það að okkar félagsmenn lenda á örorku og verða eldri borgarar þannig þetta er nátengt verkalýðsbaráttunni og við munum að sjálfsögðu taka málstað ÖBÍ og erum að gera það að okkar kröfugerð, svo höfum við verið í góðu sambandi við stjórnir og framkvæmdastjórn ÖBÍ og Félags eldri borgara,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×