Það sem þú þarft að vita um þingkosningarnar í Bandaríkjunum Kjartan Kjartansson skrifar 2. nóvember 2018 15:30 Það ræðst hver fer með völdin í bandaríska þinghúsinu í kosningunum sem fara fram á þriðjudag. Vísir/Getty Bandaríkjamenn ganga að kjörborðinu í þingkosningum á þriðjudag. Kosið er til beggja deilda Bandaríkjaþings, ríkisstjóra og fjölda opinberra embætta í hverju ríki fyrir sig. Úrslitin geta haft verulega þýðingu fyrir hvernig síðari helmingur kjörtímabils Trump forseta þróast en líkur eru á að hvor flokkur vinni sína þingdeildina. Þingkosningunum í næstu viku hefur verið lýst sem einum þeim mikilvægustu í Bandaríkjunum í manna minnum. Þær eru enda fyrsta tækifæri kjósenda til þess að segja hug sinn um stefnu landsins eftir að kosningasigur Donalds Trump umturnaði stjórnmálunum þar fyrir tveimur árum. Vísbendingar hafa verið um að viðvarandi óvinsældir forsetans gætu kostað Repúblikanaflokk hans yfirráð í neðri deild þingsins en flokkurinn hefur stýrt báðum þingdeildum frá því í kosningunum árið 2014. Vísir hefur tekið saman stutta skýringu til þess að glöggva lesendur sína á hlutverki ólíkra þingdeilda, stöðunni í skoðanakönnunum og hvaða þýðingu líkleg úrslit kosninganna gætu haft fyrir bandarísk stjórnmál.Þingkosningar á milli forsetakosninga verða gjarnan að vinsældakosningu um sitjandi forseta. Útlit er fyrir að óvinsældir Trump forseta gætu litað kosningarnar nú.Vísir/GettyTvær deildir sem skipta með sér verkum Bandaríkjaþing skiptist í tvær deildir: fulltrúadeildin og öldungadeildina. Í fulltrúadeildinni sitja 435 þingmenn en sætunum er úthlutað til ríkjanna í hlutfalli við íbúafjölda í þeim. Þingmenn þar eru kjörnir til tveggja ára í senn. Í öldungadeildinni eru aftur á móti hundrað sæti og fær hvert ríki tvo þingmenn, óháð mannfjölda. Þannig er smáríki eins og Wyoming með jafnmarga öldungadeildarþingmenn og Kalifornía, þrátt fyrir að í síðarnefnda ríkinu búi um það bil áttatíu sinnum fleiri en í því fyrrnefnda. Öldugadeildarþingmenn eru kjörnir til sex ára. Á þriðjudag verður kosið um öll sætin í fulltrúadeildinni og 35 sæti í öldugadeildinni. Deildirnar gegna ólíku hlutverki þó að saman fari þær með löggjafarvaldið. Öldungadeildin hefur vald til að samþykkja eða hafna milliríkjasamningum sem forsetinn gerir og það fellur einnig í skaut hennar að greiða atkvæði um skipan alríkisdómara og fjölda æðstu embættismanna alríkisstjórnarinnar sem forsetinn tilnefnir. Þingmenn fulltrúadeildarinnar mega einir leggja fram frumvarp um að leggja á skatta og það er í þeirra verkahring að taka ákvarðanir um ákærur á hendur opinberum embættismönnum, þar á meðal forsetanum. Innan beggja deilda starfa þingnefndir sem hafa ríkar rannsóknarheimildir, þar á meðal til þess að kalla til vitni og gefa út stefnur um gögn.Langflest þingsæti í fultlrúadeildinni eru örugglega á valdi annars hvors flokksins. Raunveruleg samkeppni er hins vegar í óvenjumörgum kjördæmum að þessu sinni, allt að 70-90.Vísir/Stöð 2Hvað segja skoðanakannanir? Vinsældir Trump forseta hafa lengi aðeins verið um og yfir 40% í skoðanakönnunum og demókratar hafa um langt skeið mælst með 5-7% forskot á repúblikana á landsvísu. Stjórnmálaskýrendum hefur því orðið tíðrætt um að demókratar gætu unnið stórsigur í þingkosningunum í svonefndri „blárri öldu“ (blár er einkennislitur Demókrataflokksins). Skoðanakannanir í einstökum ríkjum og kosningaspár sem byggjast á þeim hafa rennt stoðum undir þær væntingar, en þó ekki að öllu leyti. Um margra vikna skeið hafa þær verið stöðugar í að telja demókrata líklegri til þess að ná meirihluta í fulltrúadeildinni og repúblikana að halda meirihluta sínum í öldungadeildinni. Repúblikanar hafa nú 235 sæti gegn 193 sætum demókrata. Í fulltrúadeildinni gaf kosningaspá gagnafréttavefsins Five Thirty Eight demókrötum líkurnar sex á móti sjö að vinna meirihluta um miðja vikuna. Spálíkan CNN-fréttastöðvarinnar gerir einnig ráð fyrir að demókratar vinni meirihluta þar. Óvissan er þó enn veruleg í spám beggja miðla. Þannig gætu demókratar bætt við sig sætum í fulltrúadeildinni en rétt misst af því að ná meirihluta. Þeir gætu hins vegar einnig unnið yfirburðasigur. Five Thirty Eight telur þannig 80% möguleika á að demókratar bæti við sig á bilinu tuttugu til sextíu sætum í fulltrúadeildinni. Í öldungadeildinni er staðan hins vegar þveröfug. Þar gefur Five Thirty Eight repúblikönum sex á móti sjö að halda meirihluta sínum. Flokkurinn er nú með eins manns meirihluta en gæti bætt við sig allt að fjórum sætum. Óvissan er þó nógu mikil til að demókratar gætu enn náð meirihluta. Síðustu skoðanakannanir í nokkrum lykilríkjum benda þó til þess að von þeirra um meirihluta sé veik. Fái flokkarnir jafnmörg sæti hafa repúblikanar enn völdin því varaforsetinn greiðir oddaatkvæði ef atkvæðagreiðslur í öldungadeildinni enda í þrátefli. Ástæðan fyrir því að demókratar gætu jafnvel tapað sætum í öldungadeildinni þrátt fyrir að líkur sé á verulegri fylgissveiflu til þeirra á landsvísu er sú að þeir eiga verulega undir högg að sækja í þeim ríkjum sem kosið er í að þessu sinni. Þannig þurfa 26 öldungadeildarþingmenn demókrata að verja sæti sín en aðeins níu repúblikanar. Tíu þessara demókrata eru þar að auki í ríkjum sem eru í íhaldssamari kantinum og þar sem Trump hafði sigur í forsetakosningunum, í sumum tilfellum með tuga prósentustiga mun.Kortið yfir öldungadeildarþingsætin sem kosið er um sýnir glöggt þrönga stöðu demókrata. Kosið er um mun fleiri sæti sem demókratar halda nú en repúblikanar. Þar á meðal eru afar íhaldssöm ríki eins og Vestur-Virginíu, Norður-Dakóta og Missouri.Vísir/Stöð 2Hvaða þýðingu hefðu úrslitin? Gangi þessar spár eftir gæti líf Trump forseta orðið vandasamara á síðari helmingi kjörtímabils hans. Nái demókratar meirihluta í fulltrúadeildinni eru þeir líklegir til þess að beita rannsóknarheimildum nefnda hennar til þess að þjarma að forsetanum um mál sem repúblikanar hafa sýnt litla tilhneigingu til þess að veita honum aðhald og eftirlit. Þannig gætu demókratar kallað eftir skattskýrslum forsetans sem hefur staðfastlega hafnað að opinbera allt frá því í kosningabaráttunni á sínum tíma. Einnig gætu þeir grennslast fyrir um viðskiptahagsmuni Trump og fjölskyldu hans á erlendri grundu og rannsakað nánar meint samráð framboðs hans við Rússa. Þegar og ef Robert Mueller, sérstaki rannsakandi dómsmálaráðuneytisins, sem rannsakar hvort að Trump og Rússar hafi unnið saman að því að hafa áhrif á kosningarnar árið 2016, skilar skýrslu með niðurstöðum sínum þá fellur það í skaut fulltrúadeildarinnar að taka ákvörðun um hvort tilefni sé til að ákæra forsetann. Þar nægir einfaldur meirihluti. Demókratar gætu því ákveðið að ákæra Trump ef þeir telja ástæðu til án þess að þurfa að reiða sig á stuðning þingmanna repúblikana. Það er hins vega öldungadeildarinnar að greiða atkvæði um hvort að forsetinn skuli sakfelldur eða sýknaður af ákæru sem fulltrúadeildin samþykkir. Þar þarf aukinn meirihluta. Ef fer fram sem horfir og repúblikanar halda meirihluta sínum og bæta jafnvel við hann er afar ósennilegt að Trump yrði sakfelldur þar, að minnsta kosti miðað við núverandi stemmingu í Repúblikanaflokknum. Meirihluti í öldungadeildinni gerði Trump og leiðtogum repúblikana á þingi ennfremur kleift að halda áfram að skipa alríkisdómara í stórum stíl. Mitch McConnell, leiðtogi þeirra í öldungadeildinni, hefur sagt berum orðum að markmið repúblikana sé að skipa fjölda ungra og íhaldssamra dómara í embætti til lífstíðar til þess að færa bandaríska dómstóla til hægri um ókomna tíð.Ríkisstjórakosningar skipta máli fyrir kosningar næstu ára Repúblikanar hafa notið mikillar velgengni í ríkisstjórakosningum undanfarin ár. Tveir af hverjum þremur ríkisstjórum eru repúblikanar. Nú benda kosningaspár hins vegar til þess að demókratar gætu unnið mikið á. Kosið verður til ríkisstjóra í 39 ríkjum og yfirráðasvæðum Bandaríkjanna. Five Thirty Eight spáir nú að þrátt fyrir að repúblikanar muni áfram sitja í fleiri ríkisstjórasetrum í landinu muni ríkisstjórar demókrata ríkja yfir meirihluta landsmanna, alls um 62,6% af þjóðinni. Ríkisstjórar hafa þó nokkur völd í ríkjum sínum en ein helsta ástæðan fyrir mikilvægi kosninganna nú er að þeir sem ná kjöri nú verða að líkindum enn við völd árið 2021 þegar kjördæmamörk verða næst ákveðin fyrir kosningar til fulltrúadeildar Bandaríkjaþings. Í mörgum ríkjum hafa ríkisstjórar neitunarvald um kjördæmin sem dregin verða upp, að því er segir í umfjöllun Vox. Mikil umræða hefur farið fram um hvernig flokkarnir, sérstaklega repúblikanar, hafa breytt kjördæmamörkum til þess að hygla sjálfum sér (e. Gerrymandering). Repúblikanar nýttu sér kosningasigur í ríkisstjóra- og ríkisþingskosningum árið 2010 til þess að hagræða kjördæmamörkum víða um landið síðast þegar þeim var breytt. Afleiðingin er sú að demókratar gætu fengið 5-6% fleiri atkvæði á landsvísu en repúblikanar án þess að vinna meirihluta í fulltrúadeildinni samkvæmt mati Five Thirty Eight. Fleiri þættir spila þar þó inn í, þar á meðal að kjósendur demókrata hafa safnast saman á þéttbýlisstöðum og við vestur- og austurströndina á meðan atkvæði Repúblikanaflokksins dreifast meira yfir kjördæmi landsins. Bandaríkin Donald Trump Fréttaskýringar Rússarannsóknin Mest lesið Kosningavaktin: Íslendingar ganga að kjörborðinu Innlent Bjartsýn eftir fund í Virginíu vegna Söndru sem afplánar 37 ára dóm Innlent Missti stjórn á bílnum þegar klæðingin umvafði dekkin Innlent Lögreglan bannaði bjór á B5 Innlent Kallar eftir sams konar úrræði og Breivik og árásarmaður hennar sæta Innlent „Ég bjóst aldrei við að þetta myndi gerast“ Erlent Öryrkjar fá 1,7 skattfrjálsa milljarða Innlent Yazan og fjölskylda leita að nýju húsnæði Innlent Mansalsmál Gríska hússins: Vann sjö daga í viku hverri og svaf í kjallaranum Innlent Sakar Snorra um að tendra bál fordóma Innlent Fleiri fréttir „Ég bjóst aldrei við að þetta myndi gerast“ Ákærður fyrir ráðabrugg um að ráða Trump af dögum Fundu morðingja puttaferðalangs fimmtíu árum síðar Samstaða í Færeyjum um að bjóða út Suðureyjargöng Hverfa aftur til fortíðar vegna gervihnattatruflana Rússa Pútín óskar Trump til hamingju Yfirmaður COP29 sagður hafa reynt að selja jarðefnaeldsneyti Ráðist á ísraelska stuðningsmenn í Amsterdam Trump velur starfsmannastjóra úr innstu röðum Spennuþrungin barátta um fulltrúadeildina Þrír handteknir vegna dauða Liam Payne Vilja banna 16 ára og yngri að nota samfélagsmiðla Fundu ellefu lík í yfirgefnum pallbíll Ávarp Bidens: „Þú getur ekki elskað nágranna þinn bara þegar þið eruð sammála“ Vill taka vantraustið fyrir strax Engin furða að verkafólk hafi snúið baki við Demókrataflokknum Ríkissjórn Scholz er sprungin Óskaði Trump til hamingju og ítrekaði friðsamleg valdaskipti Ríkisstjórn Scholz á barmi þess að springa Harris búin að hringja í Trump og undirbýr ávarp Óttast verulegt bakslag á mörgum vígstöðvum Baráttan um Bandaríkin: Donald Trump verður forseti, og hvað svo? Þjóðarleiðtogar kasta kveðju á Trump Trump lýsir yfir sigri: Guð hafi bjargað honum svo hann gæti bjargað Ameríku Andstæðingar þungunarrofs unnu í Flórída Donald Trump forseti á nýjan leik Mikill fögnuður hjá Trump-liðum Repúblikanar ná meirihluta í öldungadeildinni Gætum þurft að bíða í nokkra daga ef ekkert óvænt gerist Netanjahú rekur varnarmálaráðherrann Sjá meira
Bandaríkjamenn ganga að kjörborðinu í þingkosningum á þriðjudag. Kosið er til beggja deilda Bandaríkjaþings, ríkisstjóra og fjölda opinberra embætta í hverju ríki fyrir sig. Úrslitin geta haft verulega þýðingu fyrir hvernig síðari helmingur kjörtímabils Trump forseta þróast en líkur eru á að hvor flokkur vinni sína þingdeildina. Þingkosningunum í næstu viku hefur verið lýst sem einum þeim mikilvægustu í Bandaríkjunum í manna minnum. Þær eru enda fyrsta tækifæri kjósenda til þess að segja hug sinn um stefnu landsins eftir að kosningasigur Donalds Trump umturnaði stjórnmálunum þar fyrir tveimur árum. Vísbendingar hafa verið um að viðvarandi óvinsældir forsetans gætu kostað Repúblikanaflokk hans yfirráð í neðri deild þingsins en flokkurinn hefur stýrt báðum þingdeildum frá því í kosningunum árið 2014. Vísir hefur tekið saman stutta skýringu til þess að glöggva lesendur sína á hlutverki ólíkra þingdeilda, stöðunni í skoðanakönnunum og hvaða þýðingu líkleg úrslit kosninganna gætu haft fyrir bandarísk stjórnmál.Þingkosningar á milli forsetakosninga verða gjarnan að vinsældakosningu um sitjandi forseta. Útlit er fyrir að óvinsældir Trump forseta gætu litað kosningarnar nú.Vísir/GettyTvær deildir sem skipta með sér verkum Bandaríkjaþing skiptist í tvær deildir: fulltrúadeildin og öldungadeildina. Í fulltrúadeildinni sitja 435 þingmenn en sætunum er úthlutað til ríkjanna í hlutfalli við íbúafjölda í þeim. Þingmenn þar eru kjörnir til tveggja ára í senn. Í öldungadeildinni eru aftur á móti hundrað sæti og fær hvert ríki tvo þingmenn, óháð mannfjölda. Þannig er smáríki eins og Wyoming með jafnmarga öldungadeildarþingmenn og Kalifornía, þrátt fyrir að í síðarnefnda ríkinu búi um það bil áttatíu sinnum fleiri en í því fyrrnefnda. Öldugadeildarþingmenn eru kjörnir til sex ára. Á þriðjudag verður kosið um öll sætin í fulltrúadeildinni og 35 sæti í öldugadeildinni. Deildirnar gegna ólíku hlutverki þó að saman fari þær með löggjafarvaldið. Öldungadeildin hefur vald til að samþykkja eða hafna milliríkjasamningum sem forsetinn gerir og það fellur einnig í skaut hennar að greiða atkvæði um skipan alríkisdómara og fjölda æðstu embættismanna alríkisstjórnarinnar sem forsetinn tilnefnir. Þingmenn fulltrúadeildarinnar mega einir leggja fram frumvarp um að leggja á skatta og það er í þeirra verkahring að taka ákvarðanir um ákærur á hendur opinberum embættismönnum, þar á meðal forsetanum. Innan beggja deilda starfa þingnefndir sem hafa ríkar rannsóknarheimildir, þar á meðal til þess að kalla til vitni og gefa út stefnur um gögn.Langflest þingsæti í fultlrúadeildinni eru örugglega á valdi annars hvors flokksins. Raunveruleg samkeppni er hins vegar í óvenjumörgum kjördæmum að þessu sinni, allt að 70-90.Vísir/Stöð 2Hvað segja skoðanakannanir? Vinsældir Trump forseta hafa lengi aðeins verið um og yfir 40% í skoðanakönnunum og demókratar hafa um langt skeið mælst með 5-7% forskot á repúblikana á landsvísu. Stjórnmálaskýrendum hefur því orðið tíðrætt um að demókratar gætu unnið stórsigur í þingkosningunum í svonefndri „blárri öldu“ (blár er einkennislitur Demókrataflokksins). Skoðanakannanir í einstökum ríkjum og kosningaspár sem byggjast á þeim hafa rennt stoðum undir þær væntingar, en þó ekki að öllu leyti. Um margra vikna skeið hafa þær verið stöðugar í að telja demókrata líklegri til þess að ná meirihluta í fulltrúadeildinni og repúblikana að halda meirihluta sínum í öldungadeildinni. Repúblikanar hafa nú 235 sæti gegn 193 sætum demókrata. Í fulltrúadeildinni gaf kosningaspá gagnafréttavefsins Five Thirty Eight demókrötum líkurnar sex á móti sjö að vinna meirihluta um miðja vikuna. Spálíkan CNN-fréttastöðvarinnar gerir einnig ráð fyrir að demókratar vinni meirihluta þar. Óvissan er þó enn veruleg í spám beggja miðla. Þannig gætu demókratar bætt við sig sætum í fulltrúadeildinni en rétt misst af því að ná meirihluta. Þeir gætu hins vegar einnig unnið yfirburðasigur. Five Thirty Eight telur þannig 80% möguleika á að demókratar bæti við sig á bilinu tuttugu til sextíu sætum í fulltrúadeildinni. Í öldungadeildinni er staðan hins vegar þveröfug. Þar gefur Five Thirty Eight repúblikönum sex á móti sjö að halda meirihluta sínum. Flokkurinn er nú með eins manns meirihluta en gæti bætt við sig allt að fjórum sætum. Óvissan er þó nógu mikil til að demókratar gætu enn náð meirihluta. Síðustu skoðanakannanir í nokkrum lykilríkjum benda þó til þess að von þeirra um meirihluta sé veik. Fái flokkarnir jafnmörg sæti hafa repúblikanar enn völdin því varaforsetinn greiðir oddaatkvæði ef atkvæðagreiðslur í öldungadeildinni enda í þrátefli. Ástæðan fyrir því að demókratar gætu jafnvel tapað sætum í öldungadeildinni þrátt fyrir að líkur sé á verulegri fylgissveiflu til þeirra á landsvísu er sú að þeir eiga verulega undir högg að sækja í þeim ríkjum sem kosið er í að þessu sinni. Þannig þurfa 26 öldungadeildarþingmenn demókrata að verja sæti sín en aðeins níu repúblikanar. Tíu þessara demókrata eru þar að auki í ríkjum sem eru í íhaldssamari kantinum og þar sem Trump hafði sigur í forsetakosningunum, í sumum tilfellum með tuga prósentustiga mun.Kortið yfir öldungadeildarþingsætin sem kosið er um sýnir glöggt þrönga stöðu demókrata. Kosið er um mun fleiri sæti sem demókratar halda nú en repúblikanar. Þar á meðal eru afar íhaldssöm ríki eins og Vestur-Virginíu, Norður-Dakóta og Missouri.Vísir/Stöð 2Hvaða þýðingu hefðu úrslitin? Gangi þessar spár eftir gæti líf Trump forseta orðið vandasamara á síðari helmingi kjörtímabils hans. Nái demókratar meirihluta í fulltrúadeildinni eru þeir líklegir til þess að beita rannsóknarheimildum nefnda hennar til þess að þjarma að forsetanum um mál sem repúblikanar hafa sýnt litla tilhneigingu til þess að veita honum aðhald og eftirlit. Þannig gætu demókratar kallað eftir skattskýrslum forsetans sem hefur staðfastlega hafnað að opinbera allt frá því í kosningabaráttunni á sínum tíma. Einnig gætu þeir grennslast fyrir um viðskiptahagsmuni Trump og fjölskyldu hans á erlendri grundu og rannsakað nánar meint samráð framboðs hans við Rússa. Þegar og ef Robert Mueller, sérstaki rannsakandi dómsmálaráðuneytisins, sem rannsakar hvort að Trump og Rússar hafi unnið saman að því að hafa áhrif á kosningarnar árið 2016, skilar skýrslu með niðurstöðum sínum þá fellur það í skaut fulltrúadeildarinnar að taka ákvörðun um hvort tilefni sé til að ákæra forsetann. Þar nægir einfaldur meirihluti. Demókratar gætu því ákveðið að ákæra Trump ef þeir telja ástæðu til án þess að þurfa að reiða sig á stuðning þingmanna repúblikana. Það er hins vega öldungadeildarinnar að greiða atkvæði um hvort að forsetinn skuli sakfelldur eða sýknaður af ákæru sem fulltrúadeildin samþykkir. Þar þarf aukinn meirihluta. Ef fer fram sem horfir og repúblikanar halda meirihluta sínum og bæta jafnvel við hann er afar ósennilegt að Trump yrði sakfelldur þar, að minnsta kosti miðað við núverandi stemmingu í Repúblikanaflokknum. Meirihluti í öldungadeildinni gerði Trump og leiðtogum repúblikana á þingi ennfremur kleift að halda áfram að skipa alríkisdómara í stórum stíl. Mitch McConnell, leiðtogi þeirra í öldungadeildinni, hefur sagt berum orðum að markmið repúblikana sé að skipa fjölda ungra og íhaldssamra dómara í embætti til lífstíðar til þess að færa bandaríska dómstóla til hægri um ókomna tíð.Ríkisstjórakosningar skipta máli fyrir kosningar næstu ára Repúblikanar hafa notið mikillar velgengni í ríkisstjórakosningum undanfarin ár. Tveir af hverjum þremur ríkisstjórum eru repúblikanar. Nú benda kosningaspár hins vegar til þess að demókratar gætu unnið mikið á. Kosið verður til ríkisstjóra í 39 ríkjum og yfirráðasvæðum Bandaríkjanna. Five Thirty Eight spáir nú að þrátt fyrir að repúblikanar muni áfram sitja í fleiri ríkisstjórasetrum í landinu muni ríkisstjórar demókrata ríkja yfir meirihluta landsmanna, alls um 62,6% af þjóðinni. Ríkisstjórar hafa þó nokkur völd í ríkjum sínum en ein helsta ástæðan fyrir mikilvægi kosninganna nú er að þeir sem ná kjöri nú verða að líkindum enn við völd árið 2021 þegar kjördæmamörk verða næst ákveðin fyrir kosningar til fulltrúadeildar Bandaríkjaþings. Í mörgum ríkjum hafa ríkisstjórar neitunarvald um kjördæmin sem dregin verða upp, að því er segir í umfjöllun Vox. Mikil umræða hefur farið fram um hvernig flokkarnir, sérstaklega repúblikanar, hafa breytt kjördæmamörkum til þess að hygla sjálfum sér (e. Gerrymandering). Repúblikanar nýttu sér kosningasigur í ríkisstjóra- og ríkisþingskosningum árið 2010 til þess að hagræða kjördæmamörkum víða um landið síðast þegar þeim var breytt. Afleiðingin er sú að demókratar gætu fengið 5-6% fleiri atkvæði á landsvísu en repúblikanar án þess að vinna meirihluta í fulltrúadeildinni samkvæmt mati Five Thirty Eight. Fleiri þættir spila þar þó inn í, þar á meðal að kjósendur demókrata hafa safnast saman á þéttbýlisstöðum og við vestur- og austurströndina á meðan atkvæði Repúblikanaflokksins dreifast meira yfir kjördæmi landsins.
Bandaríkin Donald Trump Fréttaskýringar Rússarannsóknin Mest lesið Kosningavaktin: Íslendingar ganga að kjörborðinu Innlent Bjartsýn eftir fund í Virginíu vegna Söndru sem afplánar 37 ára dóm Innlent Missti stjórn á bílnum þegar klæðingin umvafði dekkin Innlent Lögreglan bannaði bjór á B5 Innlent Kallar eftir sams konar úrræði og Breivik og árásarmaður hennar sæta Innlent „Ég bjóst aldrei við að þetta myndi gerast“ Erlent Öryrkjar fá 1,7 skattfrjálsa milljarða Innlent Yazan og fjölskylda leita að nýju húsnæði Innlent Mansalsmál Gríska hússins: Vann sjö daga í viku hverri og svaf í kjallaranum Innlent Sakar Snorra um að tendra bál fordóma Innlent Fleiri fréttir „Ég bjóst aldrei við að þetta myndi gerast“ Ákærður fyrir ráðabrugg um að ráða Trump af dögum Fundu morðingja puttaferðalangs fimmtíu árum síðar Samstaða í Færeyjum um að bjóða út Suðureyjargöng Hverfa aftur til fortíðar vegna gervihnattatruflana Rússa Pútín óskar Trump til hamingju Yfirmaður COP29 sagður hafa reynt að selja jarðefnaeldsneyti Ráðist á ísraelska stuðningsmenn í Amsterdam Trump velur starfsmannastjóra úr innstu röðum Spennuþrungin barátta um fulltrúadeildina Þrír handteknir vegna dauða Liam Payne Vilja banna 16 ára og yngri að nota samfélagsmiðla Fundu ellefu lík í yfirgefnum pallbíll Ávarp Bidens: „Þú getur ekki elskað nágranna þinn bara þegar þið eruð sammála“ Vill taka vantraustið fyrir strax Engin furða að verkafólk hafi snúið baki við Demókrataflokknum Ríkissjórn Scholz er sprungin Óskaði Trump til hamingju og ítrekaði friðsamleg valdaskipti Ríkisstjórn Scholz á barmi þess að springa Harris búin að hringja í Trump og undirbýr ávarp Óttast verulegt bakslag á mörgum vígstöðvum Baráttan um Bandaríkin: Donald Trump verður forseti, og hvað svo? Þjóðarleiðtogar kasta kveðju á Trump Trump lýsir yfir sigri: Guð hafi bjargað honum svo hann gæti bjargað Ameríku Andstæðingar þungunarrofs unnu í Flórída Donald Trump forseti á nýjan leik Mikill fögnuður hjá Trump-liðum Repúblikanar ná meirihluta í öldungadeildinni Gætum þurft að bíða í nokkra daga ef ekkert óvænt gerist Netanjahú rekur varnarmálaráðherrann Sjá meira