Körfubolti

Steve Kerr um Golden State liðið: Liðsandinn okkar er laskaður

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steve Kerr, þjálfari NBA-meistara Golden State Warriors.
Steve Kerr, þjálfari NBA-meistara Golden State Warriors. Vísir/Getty
Steve Kerr, þjálfari NBA-meistara Golden State Warriors, viðurkenndi að rifildi Kevin Durant og Draymond Green hafi haft slæm áhrif á andann í liðinu hans.

Kerr ræddi andlega þáttinn hjá Golden State Warriors eftir skell á móti Houston Rockets í NBA-deildinni í nótt.

Golden State setti Draymond Green í eins leiks bann í leiknum á undan fyrir hegðun sína í klefanum eftir tap á móti LA Clippers. Green hafði þá verið að rífast við Kevin Durant.

Draymond Green klúðraði síðustu sókn Golden State Warriors í Clippers-leiknum þegar það lá í augum uppi að koma boltanum sem fyrst á Kevin Durant og láta hann taka lokaskotið. Green tapaði boltanum og Golden State tapaði síðan leiknum í framlengingu.

Sögur segja að þeir Kevin Durant og Draymond Green hafi látið ýmislegt flakka í rifildinu sem byrjaði út á gólfi en endaði inn í klefa. Green á meðal annars að hafa sagt að Golden State hafi unnið án Durant og þurfi ekki á honum að halda.





Kevin Durant er með lausan samning eftir tímabilið og hefur talað um að hann ætli að ná í risasamning. Það er ólíklegt að Golden State geti boðið honum slíkan samning enda með marga launaháar stórstjörnur innanborðs.

Durant vildi ekkert ræða þetta mál eftir tapið í nótt en Steve Kerr kom aftur á móti hreint fram.

„Við erum svolítið laskaðir líkamlega og eins og er þá er liðsandinn okkar líka lasakaður,“ sagði Steve Kerr.

„Við getum ekki farið í felur með það. Við verðum bara að safna í bollann okkar, ná andann upp á ný, ná í orkuna aftur og það munum við geta. Þetta er langt, langt tímabili. Við stöndum í ströngu núna en ég þekki mína stráka,“ sagði Kerr.

Draymond Green átti skelfilegan leik á móti Houston Rockets og Kerr var sammála því. Kerr var aftur á móti ánægður með viðhorf leikmannsins og hrósaði keppnismanninum í honum.









NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×