Íslenska kvikmyndin „Víti í Vestmannaeyjum“ hlaut verðlaun barnadómnefndar alþjóðlegrar barnakvikmyndahátíðar í Bandaríkjunum í gær. Þetta eru þriðju alþjóðlegu verðlaunin sem myndin hefur fengið.
Alþjóðlega barnakvikmyndahátíðin í Chicago er sögð elsta kvikmyndahátíð sem ætluð er börnum í Norður-Ameríku. „Víti í Vestmannaeyjum“, sem gekk undir titlinum „The Falcons“ á ensku, keppti í flokki kvikmynda í fullri lengt og hlaut verðlaun barnadómnefndar hátíðarinnar, að því er segir í tilkynningu frá Sagafilm.
Kvikmyndin byggir á samnefndri bók Gunnars Helgasonar og fjallar um tíu ára gamlan dreng sem fer með liðsfélögum sínum í knattspyrnuliðinu Fálkum í keppnisferð til Vestmannaeyja. Bragi Þór Hinriksson leikstýrði myndinni og Sagafilm framleiddi.
Um 35.000 manns sáu myndina í íslenskum kvikmyndahúsum fyrr á árinu.
