Tillaga formanna Eflingar, Drífandi í Vestmannaeyjum, Framsýnar á Húsavík, Verkalýðsfélags Akraness, Verkalýðsfélags Grindavíkur, Verkalýðs- og sjómannafélags Bolungarvíkur og Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur um að vísa kjaradeilu félaga innan Starfsgreinasambandsins nú þegar til Ríkissáttasemjara var felld í sameiginlegri samninganefnd félaga sambandsins á föstudag.
Aðalsteinn Baldursson formaður Framsýnar telur líklegt að samþykkt verði á fundi samninganefndar Eflingar í kvöld að félagið kljúfi sig frá samninganefnd Starfsgreinasambandins.
„Við verðum að bíða og sjá til. Fundurinn er í kvöld og þau eru búin að liggja yfir þessu síðustu daga hvað þau ætla að gera greinilega,” segir Aðalsteinn. Hann hafi sjálfur verið talsmaður þess að félögin innan Starfsgreinasambandsins ynnu öll saman.

Ríkur vilji hefur verið meðal forystufólks Eflingar að sameinast við samningaborðið með VR en félögin eru lang fjölmennustu verkalýðsfélög landsins. Þau hafa hins vegar aldrei farið fram saman í viðræðum við Samtök atvinnulífsins.
„Mér fyndist það ekkert ólíklegt ef mál þróast svona. Það verði þá búin til mjög stórt bandalag Eflingar og VR og einhverra félaga sem færu þá með þeim. Það yrði náttúrlega gríðarlega öflugt bandalag og sterkt,” segir Aðalsteinn.
Það sé hins vegar erfitt að segja hvort öll félögin sjö sem vildu vísa kjaradeilunni til Ríkissáttasemjara færu með Eflingu í slíkt bandalag en vissulega væri verið að skoða þá möguleika. Málin skýrðust betur í kvöld. Þessi sjö félög hafi viljað segja upp kjarasamningum í febrúar þegar samningsforsendur hafi verið brostnar en orðið undir. Aðalsteinn dregur enga fjöður yfir að með því að vísa kjaradeilunni strax til Ríkissáttasemjara geti félögin fljótlega farið að hóta aðgerðum. Það þurfi að hraða samningaferlinu undir verkstjórn Ríkissáttasemjara þannig að nýir samningar taki sem fyrst gildi.
„Það er hluti af þessu, að visa núna og reyna að klára viðræðurnar og ef ekki stefna þá í átök eftir áramótin. En þetta tefst allt verulega með því að visa ekki núna.”
Þannig að menn bíða svolítið eftir Eflingu í kvöld?
„Já, menn bíða eftir niðurstöðu kvöldsins,” segir Aðalsteinn Baldursson.