Körfubolti

Michael Jordan húðskammaði einn leikmann Charlotte Hornets

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Jordan.
Michael Jordan. Vísir/Getty
Michael Jordan, að flestra mati besti körfuboltamaður allra tíma, bauð upp á eina stutta en hnitmiðaða skammarræðu í leik síns liðs í NBA-deildinni.

Jordan er löngu hættur að spila sjálfur en hann er enn hluti af NBA-deildinni sem aðaleigandi og stjórnarformaður Charlotte Hornets.

Charlotte Hornets liðið vann 108-107 sigur á Detriot Pistons í nótt og er nú komið einum sigurleik yfir fimmtíu prósent sigurhlutfall og upp í sjötta sætið í Austurdeildinni.

Það munaði þó litlu að einn leikmaður liðsins hafi klúðrað kvöldinu og sá fékk að heyra það frá herra Jordan. Sá heitir Malik Monk og fékk líka fleira en eitt orð í eyra frá MJ.

Michael Jordan var þekktur fyrir fagmennsku inn á körfuboltavellinum og meiri keppnismann er erfitt að finna. Hann sá því fulla ástæðu til að tala yfir hausamótunum á Malik Monk.





Eins og sjá má hér fyrir ofan þá hegðar Michael Jordan sér eins og vonsvikinn faðir þegar hann tekur strákinn í gegn. Sem betur fer fyrir Malik Monk þá tókst leikmönnum Detoit Pistons ekki að skora úr lokaskoti sínu og Charlotte Hornets vann því mikilvægan sigur.

Hér fyrir neðan má sjá ástæðuna fyrir því að Michael Jordan var svona ósáttur með Malik Monk. Jeremy Lamb setti niður þriggja stiga körfur en Malik Monk fékk tæknivillu fyrir að hlaupa inn á völlinn í miðjum æsingnum.





Malik Monk spilaði í ellefu mínútur í þessum leik og var með 7 stig á þeim. Hann tapaði þremur boltum og hitti úr 3 af 9 skotum sínum.

Malik Monk er bara tvítugur og á því enn eftir margt ólært í NBA-deildinni. Hann spilaði með Kentucky háskólanum en var valinn í nýliðavalinu sumarið 2017. Þetta er hans annað tímabil með Charlotte Hornets.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×