Fótbolti

Heimir þjálfar katarskt lið sem á sér sögu um litla þolinmæði

Hjörvar Ólafsson skrifar
Heimir er kominn aftur í þjálfaragallann
Heimir er kominn aftur í þjálfaragallann vísir/getty
Heimir Hallgrímsson, sem hætti störfum sem þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu í sumar, hefur fundið næsta áfangastað á þjálfaraferli sínum. Heimir heldur á ótroðnar slóðir hjá íslenskum knattspyrnuþjálfurum og raunar leikmönnum einnig, en hann mun starfa í Katar næstu árin. Hann samdi við katarska úrvalsdeildarliðið Al Arabi um að þjálfa liðið til ársins 2021.

Sé litið til sögunnar hvað varðar veltu á þjálfurum hjá liðinu er hins vegar alls kostar óvíst að Eyjamaðurinn muni staldra svo lengi við í Persaflóanum. Undanfarin 12 ár hafa 22 þjálfarar stýrt liðinu, en meðal þeirra eru Rúmeninn Dan Petrescu og Ítalinn Gianfranco Zola, fyrrverandi samherjar hjá Chelsea. Heimir er hins vegar ekki vanur að tjalda til einnar nætur og vonandi að hann fái tíma til þess að byggja upp lið sitt.

Heimir verður mestmegnis með Spánverja í þjálfarateymi sínu hjá Al Arabi, en knattspyrnan sem leikin er í Katar er undir miklum spænskum áhrifum. Hann mun hins vegar njóta liðsinnis ungs og afar efnilegs þjálfara af Seltjarnarnesinu við störf sín. Bjarki Már Ólafsson, sem er 24 ára gamall og hefur verið afreks- og yfirþjálfari hjá Gróttu auk þess að þjálfa yngri flokka hjá félaginu og vera í þjálfarateymi meistaraflokks karla undanfarin ár, mun aðstoða Heimi.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Heimir fær Bjarka Má til að aðstoða sig, en Bjarki sá um að leikgreina og kynna andstæðinga íslenska landsliðsins á meðan Heimir stýrði liðinu. Það er gríðarlega jákvætt að sjá þennan þjálfara sem á framtíðina fyrir sér fá tækifæri í þessu spennandi starfi. Þeir félagar eru nú þegar fluttir til Doha, höfuðborgar Katar, þar sem félagið hefur aðsetur og hafa hafið störf. Al Arabi æfir á einu flottasta æfingasvæði í heimi hjá Aspire akademíunni en þar starfar úrvalslið lækna, sjúkraþjálfara og vísindamanna á sviði knattspyrnunnar.

Al Arabi sem hefur sjö sinnum orðið katarskur meistari síðan liðið var stofnað árið 1952 situr þessa stundina í sjötta sæti deildarinnar. Gullaldarskeið félagsins var frá 1991 til 1997, en liðið varð fimm sinnum landsmeistari á því árabili. Frá árinu 1997 hefur liðinu ekki tekist að tryggja sér katarska meistaratitilinn og Heimi er líklega ætlað að færa liðið aftur í fremstu röð.

Fyrsti leikur Heimis í brúnni er í katarska bikarnum 21. desember. Liðið er án stiga í sínum riðli í þeirri keppni eftir þrjár leiki. Farið verður í jólafrí í kjölfarið og fyrsti leikur hjá Al Arabi eftir fríið er í sömu keppni 10. janúar. Katarska úrvalsdeildin samanstendur af 12 liðum og því eru 22 umferðir leiknar í deildinni. Sjö umferðir eru eftir af deildarkeppninni á yfirstandandi leiktíð.

Markmiðið það sem eftir lifir leiktíðar er líklega að freista þess að komast í Meistaradeild Asíu, en Al Arabi er sjö stigum á eftir Al Sailiya­ sem situr eins og sakir standa í þriðja sæti sem er neðsta sætið sem veitir þátttökurétt í undankeppni Meistaradeildarinnar. Þá eru sex stig upp í fjögur efstu sæti deildarinnar, en þau lið sem enda þar taka þátt í úrslitakeppni deildarinnar sem leikin er í lok leiktíðar í Katar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×