Mögulega eru neyðarbirgðir heimsins af bóluefni við ebólu ekki nægilega miklar. Sérfræðingar hjá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO) og bólusetningarbandalaginu GAVI hafa áhyggjur af stöðu mála. Reuters greindi frá þessu í gær. Eins og stendur eru birgðirnar um 300.000 skammtar.
„Við höfum nýlega rætt við WHO og samtök á borð við GAVI, ríkisstjórn Bandaríkjanna og annarra til þess að komast að því hvað er ásættanlegt magn fyrir framtíðina,“ sagði Beth-Ann Coller, rannsóknastjóri bóluefnaframleiðandans Merck, við miðilinn.
Eins og stendur geisar skæður ebólufaraldur í Austur-Kongó. Faraldurinn er sá næstversti í sögu Afríku og hætta er á því að hann breiðist út fyrir landamærin. Samkvæmt Merck er þó ekki talin hætta á því að bóluefni þar klárist.
En að sögn Peters Salama, stjórnanda hjá WHO, er eðli ebólufaraldra að breytast. Í auknum mæli greinist sjúkdómurinn í þéttbýli og það veldur áhyggjum af því að þörf verði á meira bóluefni í framtíðinni.

