Erlent

Fjölskylda meints njósnara segir hann saklausan

Kjartan Kjartansson skrifar
Paul Whelan er sagður öryggisstjóri bílapartabirgja í Michigan í Bandaríkjunum. Hann var handtekinn í Moskvu á föstudag.
Paul Whelan er sagður öryggisstjóri bílapartabirgja í Michigan í Bandaríkjunum. Hann var handtekinn í Moskvu á föstudag. Vísir/EPA
Bandarískur maður sem var handtekinn í Rússlandi fyrir meintar njósnir var þar til að vera viðstaddur brúðkaup og er saklaus, að sögn fjölskyldu hans. Rússnesk yfirvöld hafa ekki veitt frekari upplýsingar um meintar sakir mannsins.

Paul Whelan er fyrrverandi landgönguliði úr Bandaríkjaher. Bróðir hans David segir að hann hafi horfið þegar hann var með hópi brúðkaupsgesta á hóteli í Moskvu. Rússneska ríkisöryggisþjónustan FSB sakar Whelan um njósnir og segist hafa handtekið hann á föstudag.

„Sakleysi hans er óumdeilt og við treystum á að réttindi hans verði virt,“ sagði fjölskyldan Whelan í yfirlýsingu sem hún sendi frá sér á nýársdag, að því er segir í frétt Reuters.

David Whelan segir að bróðir sinn hafi farið margsinnis til Rússland, bæði í einkaerindinum og í vinnuferðir. Hann hafi verið leiðsögumaður fyrir hóp brúðkaupsgesta í brúðkaupi fyrrum félaga hans úr landgönguliðinu. Þegar hann hvarf skyndilega á föstudag hafi vinir hans tilkynnt um að hans væri saknað.

Reuters hefur eftir fyrrverandi skrifstofustjóra bandarísku leyniþjónustunnar í Moskvu að mögulegt og jafnvel líklegt sé að Vladímír Pútín forseti hafi skipað fyrir um handtöku Whelan til að knýja á um skipti á honum og Maríu Butina, rússneskri konu sem var handtekin og játaði sig seka um njósnir í Bandaríkjunum.

Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna segir að því hafi borist tilkynning frá Rússum um að bandarískur borgari hafi verið handtekinn. Það búist við því að sendistarfsmenn Bandaríkjanna í Rússlandi fái aðgang að Whelan eins og Vínarsáttmálinn kveður á um.

Athygli vekur að myndin að ofan, sem fjölskyldan Whelan kom til erlendra fjölmiðla, er tekin á Íslandi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×