Erlent

Sérstakur saksóknari hafnar umfjöllun Buzzfeed News um lygar Michael Cohen

Andri Eysteinsson skrifar
Trump sagði falsfréttir óvin þjóðarinnar.
Trump sagði falsfréttir óvin þjóðarinnar. Vísir/EPA
Embætti sérstaks saksóknara bandaríska dómsmálaráðuneytisins, sem Robert Mueller gegnir, hefur svarað umfjöllun bandaríska vefmiðilsins Buzzfeed News um lygar Michael Cohen og sagt umfjöllunina vera ranga.

Buzzfeed hafði það eftir tveimur ónafngreindum heimildarmönnum sínum að Donald Trump hafi skipað fyrrum lögmanni sínum, Michael Cohen, að ljúga að þingnefnd um aðkomu Trump að viðskiptum í Rússlandi á meðan að á kosningabaráttu hans stóð.

Sjá einnig: Segja Trump hafa skipað Cohen að ljúga að þingnefnd

Lögfræðingurinn var í desember síðastliðnum dæmdur til þriggja ára fangelsisvistar, meðal annars fyrir lygarnar fyrir þingnefnd. Cohen hafði farið fyrir viðræðum til að liðka fyrir byggingu Trump-turnar í Moskvu, höfuðborgar Rússlands

Cohen játaði lygarnar í nóvember en hann tjáði þingnefndinni að viðræðum hafi verið slitið í janúar 2016 þegar þeim var í raun slitið nokkrum mánuðum síðar.

Heimildarmenn Buzzfeed voru sagðir vinna að áframhaldandi rannsókn málsins gegn Cohen.

Nú hefur embætti sérstaks saksóknara tekið skref sem ekki er hefð fyrir. Embættið hefur þvertekið fyrir það sem fram kemur í fréttaflutningi Buzzfeed News.

Ben Smith, ritstjóri Buzzfeed News, svaraði Mueller í kjölfar yfirlýsingarinnar. Smith sagðist standa við fréttaflutninginn og hvatti embætti sérstaks saksóknara til þess að greina frá því hvað væri rangt við fréttina.

Samkvæmt frétt Washington Post um málið mun Mueller og starfsfólk hans líta svo á að ekkert sem fram komi í frétt Buzzfeed sé satt og standist það ekki skoðun.

Fjöldi manna tengdir forsetaembættinu fögnuðu yfirlýsingunni, þar á meðal forsetinn sjálfur Donald Trump. Trump sagði daginn í dag vera slæman dag fyrir blaðamennsku en góðan dag fyrir bandarísku þjóðina.

Hann minnti fylgjendur sína einnig á fyrri fréttaflutning miðilsins og sagði falsfréttir óvin þjóðarinnar.

Rudy Giuliani sem er í lögfræðiteymi forsetans hrósaði saksóknaranum fyrir að svara grein Buzzfeed með þeim hætti sem hann gerði. 

Fjöldi fólks hefur tjáð sig um málið, bæði stuðningsmenn forsetans sem og andstæðingar hans. Hér má sjá nokkrar valdar færslur.


Tengdar fréttir

Þingið mun rannsaka meint afbrot forsetans

BuzzFeed News segir Trump hafa skipað lögmanni sínum að ljúga að þinginu. Tilnefndur dómsmálaráðherra sammála því að slíkt teldist hindrun á framgangi réttvísi. Bæði dómsmála- og upplýsingamálanefnd þingsins ætla að rannsaka.

Segja Trump hafa skipað Cohen að ljúga að þingnefnd

Tveir nafnlausir heimildamenn fréttastofu Buzzfeed News segja Bandaríkjaforseta, Donald Trump, hafa skipað fyrrum lögmanni sínum , Michael Cohen að fremja meinsæri með því að ljúga að þingnefnd um viðskipti Trump í Rússlandi í aðdraganda forsetakosninganna í Bandaríkjunum árið 2016.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×