Roger Stone, ráðgjafi og vinur Donalds Trump Bandaríkjaforseta til fjölda ára, neitaði sök þegar hann kom fyrir alríkisdómara í Washington-borg í dag. Stone er ákærður fyrir að hafa logið að Bandaríkjaþingi um samskipti sín við Wikileaks og Trump-framboðið og fyrir að hindra framgang réttvísinnar.
Alríkislögreglumenn handtóku Stone á heimili hans á Flórída eldsnemma á föstudagsmorgun. Honum var þá kynnt ákæra í sjö liðum sem snerist að miklu leyti um hvernig hann hefði logið um tilraunir sínar til þess að afla upplýsinga um stolna tölvupósta Demókrataflokksins sem Wikileaks birti í aðdraganda forsetakosninganna árið 2016.
Mál Stone verður mögulega tekið fyrir strax á fimmtudag, að sögn Washington Post. Stone hefur ítrekað hafnað því að hafa átt í samskiptum við Wikileaks eða útsendara Rússa. Bandaríska leyniþjónustan telur fullvíst að rússneskir hakkarar hafi brotist inn í tölvur Demókrataflokksins, stolið póstunum og komið þeim til Wikileaks.
Stone, sem starfaði um skamma hríð fyrir forsetaframboð Trump en hélt áfram að vera frambjóðandanum innan handar í kosningabaráttunni, er enn einn einstaklingurinn sem tengdist framboði Trump sem hefur verið ákærður í rannsókn Roberts Mueller, sérstaks rannsakanda dómsmálaráðuneytisins. Áður hafa fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Trump, fyrrverandi kosningastjóri og varakosningastjóri, utanríkisráðgjafi framboðsins og persónulegur lögmaður forsetans verið ákærðir fyrir ýmis brot, þar á meðal fyrir að hafa logið að alríkislögreglunni FBI.
Auk lyga er Stone sakaður um að hafa reynt að hafa áhrif á vitnisburð annars vitnis í málinu.

