Emiliano Sala, leikmaður Cardiff sem er talinn hafa farist í flugslysi, sendi fyrrum liðsfélögum sínum skilaboð rétt áður en flugvélin hvarf.
Leitað hefur verið að Sala á slóðunum sem flugumferðastjórar misstu samband við vélina en enn hefur ekkert sést til flugvélarinnar. Seint í gærkvöldi var svo leitinni frestað til dagsins í dag.
Argentínski miðillinn, Ole, birti í gær upptöku á vef sínum þar sem heyra má Sala senda fyrrum liðsfélögum sínum hjá Nantes skilaboð í gegnum samskiptaforritið WhatsApp skömmu áður en þetta skelfilega slys átti sér stað.
„Halló bróðir, hvernig hefuru það? Ég er þreyttur,“ sagði Sala í skilaboðunum til félaga sinna. „Ég var hérna í Nantes að ganga frá hlutum, hlutum, hlutum, hlutum.“
„Þetta stoppar aldrei. Stoppar aldrei. Ég er allavega kominn um borð og mér líður eins og flugvélin sé að detta í sundur. Ég er á leið til Cardiff, ótrúlegt, og við byrjum á morgun.“
„Hvernig gengur þetta hjá ykkur, allt í góðu? Ef þið hafið ekki heyrt frá mér í einn og hálfan tíma, þá veit ég ekki hvort að þeir eru að fara senda einhvern því þeir munu ekki finna mig en þið munið vita það. Maður, ég er hræddur!“
