Reglugerð um merkingar á umbúðum rafrettna og áfyllinga og efni upplýsingabæklings sem fylgja skal rafrettum og áfyllingum hefur verið birt á samráðsgátt stjórnvalda til umsagnar. Í reglugerðinni er áfylling skilgreind sem „ílát sem inniheldur nikótínvökva eða annan vökva sem ætlaður er til að fylla á rafrettur.“ Í fimmtu grein reglugerðarinnar segir hins vegar að á umbúðum skuli birtast staðlaður texti þar sem segir að varan innihaldi nikótín.
Þetta segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri félags atvinnurekenda, skjóta afar skökku við. „Það er enginn sem gerir lítið úr því að neytendur eigi að fá upplýsingar um efni sem eru í þessum vörum eins og öðrum. Þeim mun furðulegra er að ríkisvaldið leggi vísvitandi til að neytendur fái rangar upplýsingar um það að það sé nikótín í vörum sem innihalda ekki nikótín. Og maður spyr þá líka hvernig eiga neytendur að beina neyslu sinni frá nikótíninu og yfir í vörur sem innihalda það síður, ef ríkisvaldið er búið að merkja þær vitlaust,“ segir Ólafur.

„Við bíðum eiginlega spennt eftir að heyra hvernig ráðherra útskýrir það að það eigi að merkja vöru vitlaust til að villa um fyrir neytendum.“
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir að athugasemdin verði skoðuð. „Við munum auðvitað skoða þetta eins og allar aðrar athugasemdir sem að koma fram og þetta er eitthvað sem að augljóslega snýst um það að reglugerðin þarf að lýsa veruleikanum eins og hann er. En ef að þessi athugasemd er fram komin þá hljótum við að taka tillit til hennar,“ segir Svandís.