Innlent

Hugvitið og nýsköpunin eina leiðin fram á við

Sveinn Arnarsson skrifar
Sigríður Mogensen.
Sigríður Mogensen. FRÉTTABLAÐIÐ/GVA
„Þetta er framlag Samtaka iðnaðarins við mótun nýsköpunarstefnu fyrir Ísland. Við erum að leggja til ýmsar aðgerðir á þessu sviði og viljum sjá meira gerast í þessum málaflokki á kjörtímabilinu því við erum að dragast aftur úr í samanburði við önnur ríki,“ segir Sigríður Mogensen, sviðsstjóri hugverkasviðs Samtaka iðnaðarins, um nýsköpunarstefnu samtakanna sem kynnt var í gær.

Í stefnunni er staðan eins og hún er í dag dregin fram sem og framtíðarsýn fyrir árið 2050. Bent er á að nú séu margvíslegir veikleikar í umhverfi nýsköpunar á Íslandi. Til að bæta umgjörð og hvata til nýsköpunar á Íslandi eru lagðar til aðgerðir í fjórum meginþáttum.

Í fyrsta lagi er lagt til að fjárfesting í rannsóknum og þróun verði aukin meðal annars með afnámi á þaki á endurgreiðslur og skattaívilnunum. Í öðru lagi er lagt til að framboð af sérfræðingum verði aukið með því að horfa til uppbyggingar menntakerfisins og efla umgjörð til að taka á móti sérfræðingum.

Þá er lagt til að stuðningsumhverfið verði einfaldað og eflt. Hægt sé að ná fram meiri skilvirkni og hagræðingu með því að sameina málaflokkinn undir einni stofnun. Að lokum er bent á mikilvægi þess að efla kynningar- og markaðsstarf þannig að Íslandi verði kynnt sem ákjósanlegur staður fyrir fólk og fyrirtæki í nýsköpun.

Sigríður segir að verði ekki gripið til aðgerða sem allra fyrst muni það koma niður á lífskjörum í framtíðinni. „Þá munum við ekki ná að byggja upp þá verðmætasköpun sem við þurfum. Það er grundvallaratriðið í þessu því hugvitið og nýsköpunin er eina leiðin fram á við.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×