Erlent

Hjúkrunarfræðingurinn neitar að hafa nauðgað konunni

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Nathan Sutherland hóf störf á hjúkrunarheimilinu árið 2012.
Nathan Sutherland hóf störf á hjúkrunarheimilinu árið 2012. Mynd/AP
Hjúkrunarfræðingur sem ákærður er fyrir að hafa nauðgað alvarlega þroskaskertri konu á hjúkrunarheimili í Phoenix í Arizona í Bandaríkjunum, með þeim afleiðingum að hún ól barn í desember, neitaði sök í málinu í gær.

Málið hefur vakið mikinn óhug í Bandaríkjunum en heilastarfsemi konunnar er afar takmörkuð. Hún er 29 ára og hafði legið á Hacienta-hjúkrunarheimilinu í tíu ár.

Sjá einnig: „Við höfðum ekki hugmynd um að hún væri ólétt“



Nathan Sutherland, 36 ára hjúkrunarfræðingur sem starfaði á stofnuninni, var ákærður fyrir að hafa nauðgað konunni eftir að lífsýni sem tekin voru af öllum karlkyns starfsmönnum voru talin sýna fram á sekt hans. Sutherland var leiddur fyrir dómara í gær og neitaði þar sök en hann hefur verið í haldi lögreglu síðan í janúar.

Lögmaður Sutherland heldur því fram að saksóknara skorti sönnunargögn í málinu gegn skjólstæðing sínum. Þá hyggst hann fara fram á aðra lífsýnarannsókn.

Sveinbarnið sem konan ól er við góða heilsu í umsjá fjölskyldu móður sinnar. Komið hefur fram að starfsfólk hjúkrunarheimilisins hafði ekki hugmynd um að konan væri ólétt fyrr en hún byrjaði að fæða barnið.


Tengdar fréttir

„Við höfðum ekki hugmynd um að hún væri ólétt“

Starfsmenn Hacienda Healthcare hjúkrunarheimilisins í Phoenix í Bandaríkjunum höfðu ekki hugmynd um að 29 ára kona, sem hefur verið í dái frá 1992, væri ólétt fyrr en fæðingin hófst í síðasta mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×