Innlent

Segir ásakanirnar rógsherferð til að stöðva útgáfu bókar um jafnaðarstefnuna

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Jón Baldvin Hannibalsson sést hér mæta í Útvarpshúsið fyrir viðtalið í Silfrinu í gær.
Jón Baldvin Hannibalsson sést hér mæta í Útvarpshúsið fyrir viðtalið í Silfrinu í gær. Vísir/Vilhelm

Jón Baldvin Hannibalsson fyrrverandi ráðherra og sendiherra segir ásakanir kvenna um kynferðisbrot á hendur sér hluti af skipulagðri herferð með það að markmiði að koma í veg fyrir fyrirhugað málþing og útgáfu bókar hans um arfleið jafnaðarmannastefnunnar. Þá hafi fjölmiðlar tekið þátt í þeirri rógsherferð.



Sjá einnig: Bloggsíða með sögum um áreitni



Jón Baldvin heldur þessu fram í aðsendri grein sem birtist í Fréttablaðinu í dag. Margar konur hafa sakað hann um kynferðisbrot eða kynferðislega áreitni síðustu vikur en elstu sögurnar eru áratugagamlar. Í grein sinni, sem ber titilinn Vörn fyrir æru, fjallar Jón Baldvin um þessar ásakanir.



Hann segir að til hafi staðið að gefa út afmælisrit um arfleið jafnaðarstefnunnar og efna til málþings um sama efni. Þetta hafi verið komið vel á veg en fljótlega hafi aðstandendur verksins orðið „varir við draugagang“.



„Hvað var á seyði? Smám saman kom í ljós, að það var skipulögð herferð í gangi, rógsherferð gegn höfundinum með það að markmiði að koma í veg fyrir fyrirhugað málþing og útgáfu bókar. Þemað var, að Jón Baldvin væri kynferðisbrotamaður, sem heiðarlegt fólk gæti ekki látið bendla sig við,“ skrifar Jón Baldvin.



Hann segir þessa áætlun jafnframt hafa verið „vel undirbúna“ og að fjölmiðlar hafi „spilað með eins og til var ætlast“.



Í dag munu birtast tuttugu frásagnir kvenna af meintum kynferðisbrotum Jóns Baldvins á nýrri bloggsíðu. Sögurnar verða nafnlausar og eru fengnar úr lokuðum Facebook-hóp, #metoo Jón Baldvin Hannibalsson.


Tengdar fréttir

Jón Baldvin segist hafa verið dæmdur án dóms og laga

Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi ráðherra og sendiherra, var í viðtali í Silfrinu á RÚV í dag þar sem hann ræddi þær ásakanir sem settar hafa verið fram á hendur honum um kynferðisbrot.

Segir atvik á Spáni hafa verið sviðsett

Frásögn Carmenar Jóhannsdóttur um kynferðislega áreitni Jóns Baldvins Hannibalssonar í þakveislu í húsi hans og Bryndísar Schram á Spáni síðasta sumar er ósönn að hans sögn. Þá hyggst hann gefa út bók um þær ásakanir sem fram hafa komið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×