Innlent

Jón Baldvin svarar fyrir ásakanirnar í Silfrinu

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, verður í Silfrinu á morgun.
Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, verður í Silfrinu á morgun. FBL/Stefán

Jón Baldvin Hannibalsson fyrrverandi ráðherra, sendiherra og formaður Alþýðuflokksins, mun á morgun mæta í viðtalsþáttinn Silfrið á RÚV til að svara fyrir ásakanir sem hafa verið settar fram á hendur honum um kynferðisbrot. Jón Baldvin hefur hingað til alfarið neitað sök fyrir utan að viðurkenna að hafa sent systurdóttur eiginkonu sinnar óviðeigandi bréf.



Þetta verður í fyrsta sinn sem Jón Baldvin samþykkir að koma í viðtal til að ræða ásakanirnar en fyrir hálfum mánuði sendi hann frá sér yfirlýsingu vegna málsins.

Í frétt Stundarinnar sem birtist 11. janúar voru birtar ásakanir fjögurra kvenna á hendur Jóni Baldvini. Frásagnirnar spanna yfir fimmtíu ár en nýjasta frásögnin hverfist um meinta kynferðislega áreitni sem á að hafa átt sér stað á Spáni síðasta sumar.



Guðrún Harðardóttir systurdóttur Bryndísar Schram, eiginkonu Jóns Baldvins, steig fram árið 2012 í ítarlegu viðtali hjá Nýju lífi þar sem hún greinir frá því að Jón Baldvin hafi sent sér klámfengin bréf.



Í yfirlýsingu sem Jón Baldvin birti í Fréttablaðinu 19. janúar viðurkenndi hann að bera þunga sök á því að hafa valdið langvarandi ósætti innan fjölskyldu eiginkonu sinnar með því að senda Guðrúnu óviðeigandi bréf.



Guðrún stofnaði Facebook-hópinn #Me too Jón Baldvin Hannibalsson fyrir skömmu en í lýsingu á hópnum kemur fram að þar sé rætt um „upplifun kvenna af áreitni og/eða ofbeldi Jóns Baldvins Hannibalssonar.“ Í hópnum eru hátt í 700 manns.



Fanney Birna Jónsdóttir blaðamaður og annar tveggja þáttastjórnanda tilkynnti um viðtalið á Facebook-síðu sinni en Jón Baldvin verður í Silfrinu á morgun klukkan 11:00.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×