Katrín Tanja Davíðsdóttir vann níundu og næst síðustu grein Fittest in Cape Town mótsins í CrossFit og er því svo gott sem búin að tryggja sér sigur í mótinu fyrir loka greinina.
Fyrir daginn í dag munaði aðeins sex stigum á Katrínu á toppnum og Mia Akerlund í öðru sætinu en Katrín byrjaði daginn á því að vinna áttundu greinina á meðan Akerlund skrikaði fótur. Ítalinn Alessandra Pichelli er nú komin upp í annað sætið en þegar ein grein er eftir munar 62 stigum á Pichelli og Katrínu.
Katrín kláraði æfinguna á 3:45,53 og var lang fyrst, önnur varð hin ástralska Courtney Haley á tímanum 4:14,00.
Þetta var fjórða einstaka greinin sem Katrín vann í mótinu, en alls er keppt í tíu greinum.
100 stig fást fyrir að vinna grein, 94 fyrir að vera í öðru sæti, 88 fyrir þriðja sætið og þar koll eftir kolli. Fari allt eðlilega hjá Katrínu í síðustu greininni ætti hún því að vera nokkuð örugg með fyrsta sætið.
Efsta sætið í mótinu tryggir þátttökurétt á heimsleikunum sem fara fram í Madison í byrjun ágústmánaðar. Katrín hefur tvisvar hlotið titilinn hraustasta kona heims með sigri á heimsleikunum, árin 2015 og 2016.

