Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR segir að boltinn sé hjá stjórnvöldum eftir að Samtök atvinnulífsins höfnuðu gagntilboði VR, Eflingar og verkalýðsfélaganna á Akranesi og í Grindavík á fundi hjá ríkissáttasemjara í morgun.
Í tilboði sem Samtök atvinnulífsins lögðu fram á miðvikudag buðu þau samkvæmt heimildum fréttastofu upp á 20 þúsund króna árlega hækkun launa undir sex hundruð þúsundum næstu þrjú árin en laun yfir sexhundruð þúsundum myndu hækka um 2,5 prósent.
Gagntilboð verkalýðsfélaganna gekk út á að öll laun hækkuðu í krónum og að lágmarkslaun verði 425 þúsund krónur í lok samningstíma. Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir þetta gagntilboð ekki falla að horfum í efnahagsmálum.
„Við tjáðum okkur um það að það tilboð sem lagt var fram hér í dag sé óaðgengilegt fyrir Samtök atvinnulífsins og geti ekki orðið grunvöllur að kjarasamningi á milli aðila,” segir Halldór Benjamín. Næsti sáttafundur hefur verið boðaður hjá ríkissáttasemjara á fimmtudag í næstu viku. En í millitíðinni munu stjórnvöld funda með forsetateymi Alþýðusambandsins þar sem farið verður yfir kröfur verkalýðsfélaganna.
„Þannig að lengra verður ekki gengið á milli þessara aðila í bili. Þannig að aðkoma stjórnvalda mun ráða úrslitum um framhaldið,” segir Ragnar Þór.
Verði niðurstaða stjórnvalda ekki ásættanleg sé komið að vissum tímamótum í viðræðum við Samtök atvinnulífsins á fimmtudag.

