Nokkurra áratuga ferli leiddi að þessari ákvörðun. Árið 1882 lagði Benjamin Harrison, þá öldungadeildarþingmaður en sjö árum síðar forseti, fram frumvarp um að gljúfrið skyldi verða þjóðgarður. Það gekk ekki upp og gerði hann gljúfrið heldur ekki að þjóðgarði í forsetatíð sinni.
Það gerði Theodore Roosevelt ekki heldur í sinni forsetatíð. „Miklagljúfur fyllir mig lotningu. Það er yfir allan samanburð hafið og er ólýsanlegt. Það á sér enga hliðstæðu í öllum heiminum. Leyfa ætti því að standa óbreyttu. Það ætti ekkert að gera sem gæti skaðað fegurð þess. Það er ekki hægt að bæta. En það sem þið getið gert er að varðveita gljúfrið fyrir börn ykkar, barnabörn og allar kynslóðir sem á eftir koma. Miklagljúfur ættu allir Bandaríkjamenn að sjá,“ sagði hann þó um staðinn.

Þótt gljúfrið sé ekki á hinum víðfræga, upprunalega lista yfir sjö undur veraldar, sem telur Risann á Ródos, píramídana í Giza, hengigarða Babýlon, vitann í Faros, grafhýsið í Halikarnassos, Seifsstyttuna í Ólympíu og Artemismusterið, hefur það ratað á ýmsa nýrri lista. USA Today valdi það á lista yfir ný undur veraldar, ásamt til dæmis veraldarvefnum, og CNN á lista yfir náttúruundur veraldar, ásamt til dæmis Everest-fjalli.
Annar bandarískur þjóðgarður fagnar sömuleiðis stórafmæli í dag. Grand Teton-þjóðgarðurinn í Wyoming-ríki hefur nú verið þjóðgarður í níutíu ár. Þjóðgarðurinn hýsir fjölmarga háa tinda og grænar sléttur á 1.300 ferkílómetra svæði. Er vinsæll áfangastaður göngufólks, fjallageita og veiðimanna. Þjóðgarðurinn dregur nafn sitt af hæsta fjalli Teton-fjallgarðsins. Fjallið Grand Teton er heilir 4.199 metrar á hæð.