Erlent

May ætlar að biðja um þriggja mánaða frestun

Kjartan Kjartansson skrifar
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands. Vísir/EPA
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, ætlar að biðja fulltrúa Evrópusambandsins um þriggja mánaða frestun á útgöngu Bretlands úr sambandinu. Áform May um að reyna til þrautar að fá þingið til að samþykkja útgöngusamning hennar fór út um þúfur þegar forseti þingsins ákvað að hún fengi ekki að leggja samninginn fram óbreyttan.

Útgöngusamningnum hefur verið hafnað í tvígang með afgerandi meirihluta á breska þinginu, síðast í síðustu viku. Þingmenn samþykktu ennfremur að fresta útgöngunni um ótiltekinn tíma nema samningur yrði samþykktur fyrir 20. mars. Til stóð að Bretar gengju úr sambandinu 29. mars.

May ætlaði því að leggja útgöngusamninginn fyrir þingið aftur í dag í þeirri von að einhverjir þingmenn Íhaldsflokksins sem greiddu atkvæði gegn honum í síðustu viku skiptu um skoðun nú þegar útlit er fyrir að útgöngunni verði frestað.

John Bercow, forseti neðri deildar þingsins, hleypti þeim áformum May upp í gær þegar hann sagði að þingsköp leyfðu ekki að sama þingmál væri lagt fram óbreytt oftar en einu sinni.

Reuters-fréttastofan segir að May hafi í dag unnið að bréfi til Donalds Tusk, forseta Evrópuráðsins, þar sem hún óskar eftir að útgöngunni verði frestað. Talsmaður forsætisráðherrans vildi ekki upplýsa um hversu langan frest hún ætlaði að biðja um.

Hún hefur áður sagt að samþykkti þingið ekki samning hennar óskaði hún eftir frestun útgöngunnar fram yfir 30. júní.


Tengdar fréttir

Bannar atkvæðagreiðslu um óbreyttan Brexit-samning

Forseti fulltrúadeildar breska þingsins, John Bercow, hefur úrskurðað að ekki verði greidd atkvæði um Brexit-samninginn að nýju fyrr en að gerðar hafa verið breytingar á efni hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×