Samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands (SGS) hefur samþykkt að viðræðunefnd hafi fulla heimild til að slíta viðræðum við Samtök atvinnulífsins (SA), komi ekki fram nýjar hugmyndir eða viðbrögð frá SA í kjaraviðræðum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá SGS.
Samningaviðræður um nýjan kjarasamning SGS og SA hafa staðið yfir undanfarnar þrjár vikur undir verkstjórn Ríkissáttasemjara. Í tilkynningu SGS segir að ýmislegt hafi áunnist í viðræðunum, „annað þokast í rétta átt og sumt er óleyst“.
Því virðist ekki vera lengra komist í viðræðum að sinni en sú vinna sem þegar hefur verið unnin sé þó gagnleg og nýtist vonandi í framhaldinu.
Fyrsti fundur í húsakynnum ríkissáttasemjara í kjaradeilu SGS og SA fór fram fyrir þremur vikum en þá hafði sambandið átt um 110 samningafundi með SA.
