Erlent

Lögfræðiálit áfall fyrir útgöngusamning May

Kjartan Kjartansson skrifar
Álits Geoffreys Cox, ríkissaksóknara, hafði verið beðið með óþreyju.
Álits Geoffreys Cox, ríkissaksóknara, hafði verið beðið með óþreyju. Vísir/EPA
Æðsti lögfræðilegi embættismaður Bretlands telur að enga lagaheimild sé að finna í útgöngusamningi Theresu May, forsætisráðherra, sem myndi gera Bretum kleift að segja sig einhliða frá umdeildu ákvæði hans um landamæri á Írlandi. Breskir þingmenn eiga að greiða atkvæði um samninginn í dag.

Beðið hafði verið eftir áliti ríkissaksóknara Bretlands á breytingum á samningnum sem May náði samkomulagi við Evrópusambandið um í gær. Hann kynnti álit sitt í dag og er niðurstaðan talin slæm tíðindi fyrir vonir May um að koma samningi sínum í gegnum þingið.

Fyrri útgáfu samningsins var hafnað með afgerandi meirihluta í þinginu í janúar. Þingmenn eru einn ósáttastir við írsku baktrygginguna svonefndu. Það er ákvæði samningsins um að Norður-Írlands verði áfram hluti af tollabandalagi sambandsin eftir útgönguna þar til samið verður um varanlegt fyrirkomulag til að koma í veg fyrir að setja þurfi upp hefðbundin landamæri á milli Írlands og Norður-Írlands.

May hafði sagt að breytingarnar gerðu Bretum kleift að segja sig einhliða frá baktryggingunni. Álit ríkissaksóknarans gengur þvert á þá yfirlýsingu. Hann segir „lagalega áhættu“ við nýja útgáfu samningsins óbreytta frá þeirri fyrri.

Til stendur að greidd verði atkvæði um útgöngusamninginn eftir klukkan 19:00 í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×