Innlent

Fundi frestað og stefnt að undirskrift á morgun

Birgir Olgeirsson skrifar
Fundað verður aftur klukkan átta á morgun en Ragnar Þór, formaður VR, segir samningsaðila hafa verið orðna dauðþreytta.
Fundað verður aftur klukkan átta á morgun en Ragnar Þór, formaður VR, segir samningsaðila hafa verið orðna dauðþreytta.
Ríkissáttasemjari hefur frestað fundi stéttarfélaga og Samtaka atvinnulífsins og hefur verið boðað til nýs fundar klukkan átta í fyrramálið. Formaður VR segir samningsgerðina á lokametrunum og stefnt að undirskrift samninga um klukkan þrjú á morgun eftir allt gengur eftir.

Fundinum var frestað rétt fyrir miðnætti en Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir í samtali við Vísi að ákveðið hefði verið að samningsaðilar fengju nætursvefn svo þeir gætu mætt ferskir að borðinu í fyrramálið og klárað samningagerðina. 

Fulltrúar stéttarfélaga og Samtaka atvinnulífsins unnu langt fram á síðustu nótt og voru mættir eldsnemma í morgun.

Ragnar Þór og Vilhjálmur Birgisson í Karphúsinu rétt fyrir miðnætti og menn á leið heim eftir að fundi hafði verið frestað.Vísir/Sigurjón
„Fólk er orðið dauðþreytt og uppgefið. Maður vill vera skýr í kollinum á lokametrunum við textagerð heldur en að gera það dauðþreyttur um miðja nótt,“ segir Ragnar.

Hann segir stéttarfélögin komin mislangt við samningagerðina og huga þurfi að sérákvæðum en stefnt sé að því að öll félögin komi saman og undirriti samninga klukkan þrjú á morgun.

Samninganefnd Eflingar samþykkti einróma fyrr í kvöld að veita formanni félagsins, Sólveigu Önnu Jónsdóttur, umboð til að ganga til samninga.

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness og 1. varaforseti ASÍ, sagði í samtal við Vísi að hann hlakki til að kynna samninginn fyrir sínu fólki því þar sé verið að slá skjaldborg utan um þá sem hafa lægstu launin. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×