Alþingi muni taka ákvörðun um tengingu Íslands við raforkumarkað ESB með sæstreng komi fram áætlanir um það.
Þetta segja þeir Stefán Már Stefánsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, og Friðrik Árni Friðriksson Hirst, lögfræðingur, í bréfi sem þeir sendu Guðlaugi Þór Þórðarsyni, utanríkisráðherra, í dag. Bréfið má finna á vef ráðuneytisins en Guðlaugur óskaði skýringa frá þeim eftir fyrri umræðu um þingsályktunartillögu hans varðandi þriðja orkupakkann á Alþingi í gær.
Stefán Már og Friðrik telja að ESA muni ekki mótmæla þessum fyrirvörum og segja nokkrar ástæður fyrir því.
a. Viðkomandi reglugerð er tekin upp og innleidd.
b. Ákvæði hennar sem varða raforkutengingar milli landa koma ekki til framkvæmda nema slíkri tengingu verði komið á.
c. Slíkri tengingu verður ekki komið á nema með samþykki Alþingis, samkvæmt þeim lagalega fyrirvara sem gerður er við innleiðinguna.
d. Valdheimildir ACER (ESA) ná ekki til ákvarðana um hvort sæstrengur verður lagður. Þær valdheimildir gilda einungis þegar slík tenging er til staðar. Því mun ekki reyna á þessi ákvæði nema Alþingi ákveði að tengja Ísland við raforkumarkað ESB með sæstreng og því getur enginn byggt rétt sinn á þessum ákvæðum.
e. Yfirlýsing orkumálastjóra ESB um að framangreindar reglur gildi ekki og hafi enga raunhæfa þýðingu hér á landi, í ljósi þess að Ísland er ekki tengt innri orkumarkaði ESB, dregur að okkar mati mjög úr líkunum á því að ESA geri athugasemdir við innleiðinguna. Þótt slík yfirlýsing sé pólitísk í eðli sínu þá hefur hún engu að síður verulegt gildi og þýðingu í þessu samhengi.
Þriðji orkupakkinn er framhald á markaðsvæðingu, framleiðslu og sölu á raforku, sem innleidd var hér á landi með fyrsta og öðrum pakkanum í gegnum raforkulög árin 2003 og 2008.
Sjá einnig: Tekist á um hvort Ísland afsali ákvörðunarrétt til Evrópusambandsins með íslenska raforku
Tekist er á um það á Alþingi hvort að Ísland afsali sér valdheimildir og ákvörðunarrétti til Evrópusambandsins yfir íslenskri raforku verði þriðji orkupakkinn samþykktur. Mögulegt afsal fullveldis Íslands hefur í því samhengi verið rætt og þá hafa ýmsir kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.