Wray sagði rannsóknir FBI oft fela eftirlit í sér og hann sagðist telja að öllum ferlum hefði verið fylgt eftir.
Þetta sagði Wray við þingmenn í dag en Barr sagði nýverið á opinberum vettvangi að hann teldi að „njósnir“ hefðu átt sér stað og Trump hefur ítrekað nýtt sér það til að gagnrýna rannsóknir sem beinast gegn honum. Meðal annars hefur hann haldið því fram að þær séu til komnar vegna hlutdrægni starfsmanna FBI.
Innra eftirlit FBI vinnur nú að rannsókn á umræddum rannsóknum FBI á mögulegum tengslum starfsmanna framboðs Trump við yfirvöld í Rússlandi og býst Barr við því að henni ljúki í þessum eða næsta mánuði.
FBI fékk heimild til að fylgjast með Carter Page árið 2016, sem þá var fyrrverandi starfsmaður framboðs Trump. New York Times sagði nýverið frá því að FBI hefði sent útsendara í dulargervi til að ræða við George Papadopoulos, ráðgjafa hjá framboðinu, eftir að hann sagði áströlskum erindreka frá því að Rússar sætu á upplýsingum um Hillary Clinton, mótframbjóðanda Trump, áður en það var opinbert.
Sjá einnig: Sagði Ástrala að Rússar sætu á upplýsingum um Clinton áður en það var opinbert
Wray sagði að starfsmenn FBI væru að vinna að því að hjálpa Barr að skilja uppruna rannsóknanna. Hann virtist þó stíga varlega til jarðar og ýjaði að því að einungis væri um mismunandi skilning aðila á eftirliti að ræða.
„Ég tel mikilvægt að Bandaríkjamenn skilji að við erum að tala um tvær rannsóknir sem spanna um fimmtán mánaða tímabil,“ sagði Wray og bætti við að þær væru einungis hluti af mörg þúsund rannsóknum FBI sem miði allar að því að gera Bandaríkin örugg.